Andlát: Sveinn Guðmundsson á Sauðárkróki

Sveinn Guðmundsson.
Sveinn Guðmundsson. mbl.s/Helgi Bjarnason

Sveinn Guðmundsson, hestamaður og hrossaræktandi á Sauðárkróki, lést í gærmorgun. Hann varð níræður.

Sveinn var í áratugi meðal fremstu hrossaræktenda landsins og ræktun hans hefur markað djúp spor í ræktun íslenska hestsins og á stóran þátt í þeim framförum sem orðið hafa í hrossarækt.

Sveinn var fæddur á Sauðárkróki 3. ágúst 1922 og bjó þar alla tíð. Foreldrar hans voru Guðmundur Sveinsson frá Hóli í Sæmundarhlíð, skrifstofumaður hjá Kaupfélagi Skagfirðinga, og Dýrleif Árnadóttir frá Utanverðunesi í Hegranesi.

Sveinn var verslunarstjóri hjá Kaupfélagi Skagfirðinga um árabil og kjötmatsmaður í tugi ára.

Kunnastur var Sveinn fyrir hrossarækt. Hún hófst með því að hann sýndi hryssuna Ragnars-Brúnku á Landsmóti hestamanna á Þveráreyrum 1954. Ragnars-Brúnka varð stofnhryssa í ræktun Sveins. Afkvæmi hennar og afkomendur þeirra hafa skilað mörgum gæðingum sem ræktaðir hafa verið frá Sauðárkróks-Hestum en það er heiti ræktunar fjölskyldunnar.

Sveinn hlaut fjölda viðurkenninga fyrir störf sín að hrossarækt. Hann var sæmdur riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu, gerður að heiðursborgara Sauðárkróks og heiðursfélaga Landssambands hestamannafélaga.

Eiginkona Sveins, Ragnhildur Óskarsdóttir, lést árið 1991. Hann eignaðist fjögur börn.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert