Leyndardómar héraðsskjalasafnanna

Af því tilefni að á sunnudag verður Alþjóðlegi skjaladagurinn haldinn hátíðlegur verður opið hús í tólf héraðsskjalasöfnum hér á landi í dag. Tilvalið er því að kíkja við á næsta opna héraðsskjalasafni og spjalla við starfsmenn um leyndardóma safnanna.

Héraðsskjalasöfn víða um land taka þátt í Alþjóðlega skjaladeginum en þau eru tuttugu talsins. Í tilkynningu frá söfnunum segir að þeirra meginhlutverk sé að safna, varðveita og afgreiða úr skjölum bæjar- og sveitastjórna, stofnana þeirra og fyrirtækja. Með því tryggi þau upplýsingarétt almennings og gagnsæi stjórnsýslunnar, ekki aðeins í dagsins önn, heldur einnig langt aftur í tímann og geti það varðað miklu. Jafnframt taki þau til varðveislu skjöl einstaklinga, félaga og fyrirtækja í sínu umdæmi. Héraðsskjalasöfnin varðveiti því söguna heima í héraði og gegni margvíslegu menningar- og stjórnsýslulegu hlutverki sem skilgreint sé í lögum.

Skjalasöfn um allan heim taka þátt með einum eða öðrum hætti og í dag verður opið  á eftirtöldum héraðsskjalasöfnum á milli klukkan 14 og 16:

Borgarskjalasafn Reykjavíkur
Héraðskjalasafn Kópavogs
Héraðskjalasafn Árnesinga, Selfossi
Héraðsskjalasafnið á Ísafirði
Héraðsskjalasafnið á Akureyri

Héraðsskjalasafn Mosfellsbæjar
Héraðsskjalasafn Akraneskaupstaðar
Héraðsskjalasafn Vestmanneyja

Héraðsskjalasafn Austur-Skaftafellssýslu, Hornafirði
Héraðsskjalasafn Þingeyinga, Húsavík

Héraðsskjalasafn Svarfdæla, Dalvík
Héraðsskjalasafn Borgarfjarðar, Borgarnesi

Á Alþjóðlega skjaladeginum er vakin athygli á mikilvægi starfs skjalasafna og mikilvægi þess að skjöl varðveitist með tryggilegum hætti. Á vef alþjóða skjalaráðsins ICA er hægt að skoða dagskrá safna annarra landa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert