Heit umræða um hjálmaskyldu

Þessi hjólreiðamaður sá ekki ástæðu til að nota hjálm.
Þessi hjólreiðamaður sá ekki ástæðu til að nota hjálm. Heiðar Kristjánsson

Í einstaka Evrópulöndum er nú rætt um að lögleiða hjálmanotkun og sums staðar í heiminum hefur hún þegar verið lögleidd, s.s. á Spáni og í Ástralíu. Evrópusamband hjólreiðamanna (ECF) er algjörlega á móti hjálmaskyldu og bendir m.a. á að hjálmaskylda dragi úr hjólreiðum og með henni sé ranglega gefið í skyn að hjólreiðar séu hættulegar. Allt eins mætti skylda gangandi vegfarendur eða þá sem aka um í bílum til að vera með hjálma.

Á Íslandi er bundið í lög að börn, 15 ára og yngri, séu með hjálma á reiðhjólum. Ákvæði í drögum að nýjum umferðarlögum um að innanríkisráðherra gæti í reglugerð kveðið á um skyldu á hlífðarbúnaði „fyrir óvarða vegfarendur“ vakti fyrir stuttu ugg í brjósti þeirra sem eru andvígir hjálmaskyldu. Þótt fullorðnum sé í sjálfsvald sett hvort þeir noti hjálma eða ekki er áróður fyrir hjálmanotkun fullorðinna mikill og þeir sem ekki nota hjálm fá oft orð í eyra, jafnvel frá bláókunnugu fólki. „Hvar er hjálmurinn?“ er gjarnan spurt, jafnvel þótt hjálmlausi hjólreiðamaðurinn hafa bara skroppið spölkorn út í búð. Fólk sem aldrei hjólar hefur ekki síður skoðanir á málinu en þeir sem hjóla.

Fáir með hjálm í hjólaborgum

Á höfuðborgarsvæðinu virðist meirihlutinn hjóla með hjálm. Þegar farið er í helstu hjólreiðahöfuðborgir Evrópu, s.s. Kaupmannahöfn og Amsterdam, er allt annað uppi á teningnum – þar notar minnihlutinn hjálm.

Rétt er að taka fram að hér er rætt um hjálmanotkun við hversdagslegar hjólreiðar, út í búð, til og frá vinnu og þess háttar en ekki um keppnishjólreiðar en hjálmanotkun er skylda í keppnum enda er hraðinn miklu meiri.

Hjálmaumræðan er jafnan þrungin heitum tilfinningum og þátttakendur í vinnuhóp um hjálmaskyldu á ráðstefnunni Velo-city 2013 sem haldin var í Vín í liðinni viku höfðu á orði að hjálmadeilan líktist oft trúardeilum.

Þeir sem eru andvígir hjálmaskyldu bentu á m.a. að ekki dygði að horfa eingöngu á hvort einstaklingur sem væri með hjálm væri betur eða verr settur í umferðinni en raunar hefðu engar rannsóknir staðfest að hjálmanotkun drægi úr líkum á áverkum og slysum. Líta yrði á málið í hinu stóra samhengi. Hafa yrði í huga að hjólreiðar væru ekki hættulegar og enginn efaðist um að auknar hjólreiðar bættu heilsu almennings, svonefnda lýðheilsu. Þar sem hjálmanotkun hefði verið leidd í lög hefði dregið úr hjólreiðum, þar með væri heilsa almennings verri og kostnaður heilbrigðiskerfisins meiri. Þegar tekið væri tillit til alls þessa stuðlaði hjálmaskylda ekki að bættu öryggi eða heilsu.

Á móti hjálmaherferðum

Ceri Woolsgrove hjá ECF tók fram að hann væri alls ekki andvígur hjálmanotkun en hún yrði að vera persónulegt val hvers og eins. Hann sagðist algjörlega andvígur herferðum fyrir hjálmanotkun. Í þeim væri ranglega hamrað á að það væri hættulegt að hjóla og hann þekkti engin dæmi um hjálmaherferð sem hefði hvatt fólk, börn eða fullorðna, til hjólreiða. „Það verður að meta áhættuna. Hættan á því að hjólreiðamaður verði fyrir höfuðáverka er sambærileg og hætta á höfuðáverkum hjá gangandi vegfarendum og hjá ökumönnum. Af hverju ættum við að vera með þessar herferðir? Ég get séð hvers vegna hjálmaframleiðendur styðja þær en ekki af hverju yfirvöld ættu að gera það? Við viljum þá fá vita af hverju gangandi vegfarendum og ökumönnum bíla er ekki líka sagt að vera með hjálma,“ sagði hann.

Þar að auki skorti rannsóknir á gagnsemi hjálma. Þær sem hefðu verið gerðar hefðu sýnt að hjálmur virkar ef árekstur verður á 19 km hraða eða minna. „Ef hraðinn er meiri er hann gagnslaus,“ sagði hann. Sumir hjálmar virkuðu örlítið betur, aðrir verr.

Út um allan bæ er hjólandi fólk á öllum aldri …
Út um allan bæ er hjólandi fólk á öllum aldri og reiðhjólin verða sífellt vinsælli farartæki. Kristinn Ingvarsson
Morgunblaðið/Ómar
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert