„Harpa var stóra verkefnið“

Jónas Halldórsson
Jónas Halldórsson

„Við sem byggjum þessi hús sjáum þau ekki alveg með sömu augum og aðrir, en „wow“ faktorinn kemur alltaf eftir á,“ segir byggingarverkfræðingurinn Jónas Halldórsson, sem meðal annars var verkefnastjóri í byggingu Hörpu, en hefur nú flust búferlum til Noregs ásamt fjölskyldu sinni.

Jónas flutti út í ágúst 2012, en það var vegna skorts á vinnu hérna á Íslandi. „Ég var alltaf að rembast við að fá vinnu heima, en er líka með mikinn metnað og er á þannig stað í lífinu að erfitt getur verið að sætta sig við hvað sem er.“ Svokallaður hausaveiðari hafði samband við Jónas, en hausaveiðarar vinna oft fyrir atvinnurekendur við að leita að álitlegu fólki. 

Tómarúm eftir að verk klárast

„Það var ótrúlega gaman og krefjandi að koma að byggingu Hörpu, en ég var með frá byrjun verksins til loka þess.“ Jónas segir Hörpu hafa verið sitt stóra verkefni og játar að hafa fundið fyrir ákveðnu tómarúmi eftir að síðasti naglinn var negldur. Harpa hafi verið vinnustaður hans í fimm ár og hann þekki því hvern krók og kima. Nú sé hins vegar skemmtilegt að sjá bygginguna úr fjarlægð og frá öðru sjónarhorni.

Fjölskyldan hefur aðlagast vel í Noregi, en Jónar flutti út ásamt konu sinni, Önnu Maríu Þorvaldsdóttur og þremur börnum, þeim Halldóri Snæ 15 ára, Aron Yngva 10 ára og Lísu Margrét 4 ára. „Aðlögunarhæfnin er þó í öfugri röð eftir aldri. Þeirri yngstu hefur gengið afar vel en örlítið erfiðara fyrir þau eldri.“

Margir Íslendingar í Noregi

Mikið er um Íslendinga sem flust hafa búferlum til Noregs í kjölfar hrunsins. „Ég hef ekki tölu á því hversu margir við erum. En ég er í klúbbi ásamt 20-30 öðrum tækni- og verkfræðingum. Við hittumst reglulega, spjöllum um heima og geima og fáum okkur kaffi. Já og einstaka bjór,“ segir hann og hlær. Suma þekkti Jónas áður en aðrir hafa bæst í hópinn. „Margir hérna eru svokallaðir pendlerar. Þeir eru þá í þrjár vikur hérna úti og eina viku heima á Íslandi með fjölskyldunni til skiptis.“ Hann segir það fyrirkomulag vissulega ekki vera fyrir alla þótt það venjist.

Áhugi er fyrir að flytja aftur til Íslands þar sem Jónas og fjölskylda höfðu nýlokið byggingu á húsi í Kópavoginum þegar út var haldið. „Þetta er samt skrítið. Þú byrjar að byggja upp lífið hérna og eftir því sem þú ert lengur áttarðu þig á því að þetta er bara fínt. Venst furðu fljótt.“

Lítið um að vera á Íslandi

Hann segir að enn sé lítið af verkefnum heima. „Þetta er bara kropp og algjör ládeyða.“ Þá segir hann að ef einhvern tímann eigi að ráðast í byggingu hátæknisjúkrahúss sé það núna. „Telji menn þörf á því ætti að gera það í dag. Verkið kostar jafn mikið og eitt rekstrarár hjá Landspítalanum og nú er verð hjá öllum í lágmarki. Verkið myndi skapa vinnu sem fengist á góðu verði. Allir vinna.“

Í dag vinnur Jónas hjá verktakafyrirtækinu NCC sem er eitt það stærsta í Skandinavíu. „Ég er verkefnastjóri í byggingu skóla í Ullensaker-bæjarfélaginu, sem er um það bil hálftíma utan fyrir Osló. Þetta er eitt stærsta verkið í sveitafélaginu og er nú komið vel á veg.“

Hér er íslenski hópurinn úti að borða.
Hér er íslenski hópurinn úti að borða.
Skólinn sem Jónas vinnur að er vel á veg kominn
Skólinn sem Jónas vinnur að er vel á veg kominn
Fjölskyldan hefur aðlagast vel í Noregi
Fjölskyldan hefur aðlagast vel í Noregi
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert