Vegurinn milli Eldgjár og Landmannalauga opinn

„Vegirnir koma ágætlega undan vetri og þeir eru ekki mikið skemmdir. Tiltölulega lítil aurbleyta er á þeim,“ sagði Bjarni Jón Finnsson hjá Vegagerðinni. Nokkur snjór er þó enn víða á hálendinu.

Búið er að opnað veginn milli Eldgjár og Landmannalauga, vegur F208 er nú allur opinn.

Vegurinn frá Keldum og niður í Emstrur og að Fljótsdal, sem er innsti bærinn í Fljótshlíðinni, opnast í dag. 

Allur vegurinn inn í Lakagíga er einnig orðinn fær. 

Vegurinn inn í Langasjó er ófær. Hann verður væntanlega opnaður í næstu viku. „Við komumst ekki í að opna allt í einu.“ 

Ekki er búið að opna veginn frá Hólaskjóli og inn í Hvanngil, oftast er endað á þeim vegi á þessum hluta hálendisins segir Bjarni Jón. 

Eystri hluti Fjallabaksleiðar syðri um Mælifellssand er hins vegar enn lokaður.

Opið er úr Skagafirði, hjá Mælifelli, inn á Kjalveg. 

Vegagerðin vill brýna fyrir fólki að fara ekki inn á vegi sem eru ófærir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert