Íslenskur ísjaki í New York

Brot úr Vatnajökli er til sýnis í MoMa listasafninu í …
Brot úr Vatnajökli er til sýnis í MoMa listasafninu í New York. Skjáskot af National Geograpic

„Það er ekki eins og New York fari að sjá jökulinn á Íslandi svo það er betra að koma með smá brot af Íslandi til New York,“ segir listamaðurinn Ólafur Elíasson um ísjaka úr Vatnajökli sem nú er til sýnis í listasafninu MoMa.

Ólafur segir í viðtali á vef National Geographic að umhverfi Vatnajökuls sé eini staðurinn í heiminum þar sem hægt sé að standa í sandinum og horfa á jaka brotna frá jökli. Hann segist halda að flestir jarðarbúar hafi ekki skilning á loftslagsbreytingum þar sem þeir geti ekki beinlínis séð áhrif þeirra.

Sýning hans sem var opnuð í MoMa í síðasta mánuði er tilraun til að breyta því.

Í viðtalinu kemur fram að Ólafur hafi beðið tvo vini sína að svipast um eftir ísjaka sem hægt væri að flytja til Bandaríkjanna. Mennirnir fóru að Vatnajökli á hverjum degi í þrjár vikur þar til þeir höfðu fundið nokkur brot úr jöklinum í réttri stærð. Þeim var svo komið fyrir í frystigámi.

Klaus Biesenbach, stjórnandi MoMa, segir að ísinn hafi verið fluttur með sama hætti og frosinn lax er fluttur milli landa. Vandinn var svo að halda jökunum frosnum svo þeir töpuðu ekki upprunalegri lögun sinni. Einu galleríi safnsins var því breytt í risastóran frystiskáp.

Í grein National Geographic segir að gagnrýnendur hafi bent á að mikla orku þurfi till að halda ísjökunum frosnum. Kælikerfið notar þó sólarorku að hluta. 

Þá segir í greininni að það sé mögnuð upplifun að koma inn í safnið úr sumarhitanum og sjá þar stóran ísjaka. 

„Þessir jöklar bera mörg þúsund ára sögu okkar vitni og nú eru þeir að bráðna eins og saga okkar sé að dofna,“ er haft eftir Ólafi.

Sýningunni lýkur í september. Þá verða örlög jakanna þau hin sömu og þeir hefðu hlotið á Íslandi: Þeir munu bráðna.

22 tonna ísjaki var hífður upp úr Jökulsárlóni fyrir nokkrum …
22 tonna ísjaki var hífður upp úr Jökulsárlóni fyrir nokkrum árum og sýndur á Íslandssýningu í París. mbl.is/Rax
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert