Búið að ná báðum flugritum

Vélin eftir brotlendinguna á Keflavíkurflugvelli í morgun. Hjól hennar komu …
Vélin eftir brotlendinguna á Keflavíkurflugvelli í morgun. Hjól hennar komu ekki niður. mbl.is/Sævar Baldursson

„Við höfum tekið viðtöl við flugmennina og þurftum aðstoð túlka til þess,“ segir Ragnar Guðmundsson, rannsakanda hjá rannsóknarnefnd samgönguslysa, en töluverðan tíma mun hafa tekið að útvega rússneska túlka til verksins.

Um klukkan hálfsex í morgun magalenti flugvél af gerðinni Sukhoi Superjet 100 á Keflavíkurflugvelli eftir að hjól þotunnar fóru ekki niður sem skyldi. Fimm manna rússnesk áhöfn var um borð í vélinni þegar slysið átti sér stað og var einn fluttur á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja til aðhlynningar. Hann er með minniháttar áverka.

Tveir flugritar, ferðriti og hljóðriti, voru um borð í þotunni en búið er að ná þeim úr flakinu. Flugritarnir verða í vörslu rannsóknarnefndarinnar þar til þeir verða sendir úr landi til greiningar.

„Það var mjög mikið mál að ná öðrum ritanum [ferðritanum] því hann var staðsettur þannig að við þurftum að komast undir vélina að aftan. Svo það fór mikil vinna í það en það hafðist,“ segir Ragnar.

Aðspurður hvert ritarnir verða sendir til greiningar segist Ragnar ekki vera með það á hreinu að svo stöddu en sú ákvörðun verður tekin á morgun.

Þegar þotan magalenti á flugbrautinni olli hún talsverðum skemmdum en nokkur flugbrautarljós eyðilögðust þegar vélin fór utan í þau. Búið er að hreinsa brautina af öllu braki en flak vélarinnar situr þó enn á sínum stað. Flugbrautin verður því áfram lokuð en á morgun gæti komið í ljós hvenær vélin verður fjarlægð af henni.

Ragnar segir vélina vera mikið skemmda, t.a.m. á hreyflum. Ástand vélarinnar mun þó koma betur í ljós eftir að búið er að fjarlægja hana af vettvangi.

Í dag var einnig reynt að hafa samband við rússneska rannsóknarnefnd en þeir eiga rétt á því að skipa fulltrúa og taka þátt í rannsókn slyssins. Þrátt fyrir ítarlegar tilraunir segir Ragnar það enn ekki hafa tekist að ná sambandi við nefndina.

Greint var frá því fyrr í dag að vélar af sömu gerð hafa áður ratað í fjölmiðla sökum bilana í lendingarbúnaði, en í mars í 2012 tilkynnti Sukhoi að gera þyrfti við lendingarbúnað í öllum farþegaþotum sem framleiddar hefðu verið af gerðinni Sukhoi Superjet 100.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert