Undirbúa flutning vélarinnar

Vélin er enn við enda flugbrautarinnar, en hún brotlenti þar …
Vélin er enn við enda flugbrautarinnar, en hún brotlenti þar á sunnudag. Hjól hennar komu ekki niður. mbl.is/Sævar Baldursson

Verið er að undirbúa að fjarlægja rússnesku flugvélina Sukhoi Super-jet 100, sem brotlenti á Keflavíkurflugvelli á sunnudag. Verið er að kanna hvort þörf er á að fá meiri búnað til landsins til að flytja vélina.

Á Keflavíkurflugvelli er búnaður sem notaður er til að fjarlægja flugvélar sem ekki eru flughæfar. Ekki er þó víst að hann dugi í það verkefni að flytja rússnesku vélina frá enda flugbrautarinnar, þar sem hún er núna, og að flughlaði við flugskýli á vellinum. Vélin er um 30 tonn. Ragnar Guðmundsson, starfsmaður Rannsóknarnefndar samgönguslysa, segir að gljúpur jarðvegur sé þar sem vélin er og menn þurfi að taka tillit til þess við undirbúning verkefnisins.

Ragnar segir að rannsókn á flugslysinu miði vel áfram. Búið sé að taka skýrslur af áhöfninni. Í þeim skýrslum hafi komið fram ákveðnar skýringar á því sem gerðist, en rannsóknarnefndin þurfi að staðfesta þær með rannsókn á vélinni sjálfri og flugritum.

Flugvélin hefur verið síðastliðinn mánuð við tilrauna- og æfingaflug á Keflavíkurflugvelli á vegum framleiðanda vélarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert