Minni eyjar seljast hraðar en stærri

Svefneyjar á Breiðafirði.
Svefneyjar á Breiðafirði. www.mats.is

Eyjan Barkarnautur á Breiðafirði seldist skömmu eftir að hún var auglýst til sölu í Morgunblaðinu á laugardag.

„Hún er hæfilega stór,“ segir Pétur Kristinsson hjá Fasteigna- og skipasölu Snæfellsness um eyjuna sem er 25 hektarar. Í umfjöllun um söluna í Morgunblaðinu í dag segir hann auðveldara að selja minni eyjar en stærri.

Undir þetta tekur Magnús Leópoldsson, eigandi Fasteignamiðstöðvarinnar, en hann hefur um nokkurt skeið haft til sölu Svefneyjar, sem liggja í miðjum Breiðafirði, um 4,5 km austur af Flatey. Magnús segir fátítt að eyjar á Breiðafirði skipti um eigendur en það sé fyrst og fremst vegna þess að þær eru sjaldan settar á sölu.

„Í mörgum tilfellum eru eigendurnir margir og þeim heldur bara áfram að fjölga með hverri kynslóð. Þetta er oft eitthvað sem fólk telur alveg heilagt og má ekki selja. En svo koma svona einstaka dæmi inn á milli og þá eru það þessar eyjar sem eru minni að umfang sem gengur betur að selja,“ segir hann.

Talsverðar þreifingar hafa átt sér stað um Svefneyjar og segir hann að tilboð hafi verið gerð í eignina en hún sé enn óseld. Magnús segir verð á jörðum vera svipað og það var 2006. Talsvert sé um fyrirspurnir varðandi jarðarkaup.

„Það er mjög mikið af ungu fólki í sambandi við okkur sem hefur áhuga og er að reyna að sjá möguleika,“ segir hann. Fjárhagslega gangi þó dæmið ekki alltaf upp og margir þurfi að skjóta draumunum á frest.

„Það vantar ekki áhugann hjá fólki fyrir landi en það dugar ekki alveg eitt og sér.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert