Ekki bara á ábyrgð skólans

Brynhildur Þórarinsdóttir, formaður stjórnar Barnabókasetursins.
Brynhildur Þórarinsdóttir, formaður stjórnar Barnabókasetursins. mbl.is

„Mikilvægast er að vinna í því að gera lestur að fjölskyldumáli eða skemmtimáli og snúa þannig við þessari þróun með því að höfða til fjölskyldna og fá foreldra til þess að lesa með börnum sínum samhliða skólanum,“ segir Brynhildur Þórarinsdóttir, formaður stjórnar Barnabókasetursins.

Í dag birtust niðurstöður lesskimunar sem Reykjavíkurborg stóð fyrir og þar kom fram að einungis 59% drengja og 67% stúlkna í öðrum bekk geta lesið sér til gagns. 

„Það eru auðvitað mörg börn sem læra að lesa í skólanum en það eru margar rannsóknir sem sýna að meiri líkur eru á að þau öðlist áhuga á lestri ef þau alast upp við bækur og sjá foreldra sína lesa. Þeir krakkar sem hafa síðan áhuga á lestri eru líklegri til að standa sig vel. Þess vegna er mikilvægt að lestraráhuginn vakni snemma.“ 

Brynhildur telur þó að rannsókn Reykjavíkurborgar beri að taka alvarlega og gefa tilefni til þess að spýta í lófana og gera allt sem hægt er til þess að auka áhuga krakka á lestri. „Það að um 63% krakka geti lesið sér til gagns er fínt í sjálfu sér og það er ennþá góð von fyrir þá sem ekki enn hafa náð tökum á lestri. Sumir ná ekki almennilegum tökum á lestri fyrr en þau verða 8-9 ára, en við ættum alltaf að spyrja okkur: Hafa þau gaman að lestri? Ef þau finna ekki lestrarnautnina þá munu þau aldrei lesa sjálf. Það er mjög mikilvægt til þess að standa sig vel, að geta lesið af eigin hvötum.“

Börnin verða að hafa lestrarfyrirmyndir

Ýmislegt er hægt að gera til þess að auka áhuga krakka á lestri, að sögn Brynhildar. Það eru ótal skólar sem eru að vinna skemmtilega hluti og flestir þeirra eru með einhver lestrarátök. Við verðum hins vegar að spyrja okkur hvort þau séu að skila sér. Skólarnir geta ekki snúið þróuninni við einir og sér, við verðum að ná inn á heimilin.“ Brynhildur telur það einnig skipta miklu máli hvernig samfélagið fjallar til dæmis um barnabækur. „Við þurfum að fjalla vel um barnabækur. Er fjallað um barnabækur í bókaþáttum í sjónvarpi og útvarpi? Er talað um barnabækur í barnatímanum? Börn verða að fá þau skilaboð að bækurnar þeirra skipti máli og að það sé ekki bara nauðsynlegt að kunna að lesa, heldur einnig skemmtilegt. Það gerum við ekki nema við sýnum þeim sem samfélag að allir lesa og að þau hafi lestrarfyrirmyndir heima hjá sér, og hjá fyrirmyndum sem finnast í til dæmis íþróttum og tónlist. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert