Aukinn rekstrarhagnaður

Morgunblaðshúsið í Hádegismóum.
Morgunblaðshúsið í Hádegismóum. mbl.is/ÞÖK

Heildartekjur Árvakurs, útgáfufélags Morgunblaðsins, námu 3.155 milljónum króna í fyrra, sem er aukning um 5% frá árinu 2011. Rekstrarhagnaður (EBITDA) nam 101 milljón króna og jókst um rúmar 60 milljónir króna frá fyrra ári.

Þetta var umtalsvert meiri rekstrarhagnaður en áætlaður hafði verið, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.

Tap eftir skatta dróst verulega saman á milli ára og nam 47 milljónum króna í fyrra. Árið 2011 var tapið 205 milljónir króna.

Eigið fé í árslok 2012 var 975 milljónir króna og eiginfjárhlutfallið var 44%. Hlutafé var aukið um 540 milljónir króna árið 2012 og var það hluti af fjárhagslegri endurskipulagningu sem fram fór árið 2011.

Heildareignir Árvakurs námu rúmum 2,2 milljörðum króna í lok síðasta árs.

Óskar Magnússon útgefandi segir að rekstrarhagnaðurinn í fyrra hafi verið um 30 milljónir króna umfram áætlanir.

Reksturinn í ár á áætlun

„Afkoman, mæld á þennan mælikvarða, var neikvæð árið 2008 um 575 milljónir og hefur því batnað um 676 milljónir frá því að nýir eigendur tóku við félaginu. Rekstur ársins 2013 er fram til þessa samkvæmt áætlun.

Áskrifendum hefur fjölgað um hátt á fjórða þúsund, ekki síst í kjölfar þess að félagið hóf að bjóða áskrift á iPad og Android spjaldtölvur, í fyrstu fyrir námsmenn með sérstöku tilboði en í kjölfarið fyrir alla áskrifendur. Þrátt fyrir batnandi afkomu er enn þörf á ströngu aðhaldi og hagræðingu til að takast á við almennar launa- og verðlagshækkanir,“ segir Óskar Magnússon.

Fréttavefur Morgunblaðsins, mbl.is.
Fréttavefur Morgunblaðsins, mbl.is. mbl.is
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert