Bretti upp ermarnar og láti verkin tala

Reykjavík.
Reykjavík.

Neytendasamtökin segja það ábyrgð stjórnvalda að sjá eignalausu fólki og leigjendum fyrir viðráðanlegum kostum í húsnæðismálum. Ekki verði annað séð en vilji stjórnvalda, og allra flokka, standi til þess að gera leigu að raunhæfum valkosti en því miður hafi ekkert enn gerst í þessum efnum.

Á vefsvæði samtakanna er fjallað um þá umræðu sem verið hefur hávær að undanförnu um skort á leiguhúsnæði hér á landi. Einnig að leiga hafi hækkað mjög.

„Með hliðsjón af vaxandi eftirspurn eftir leiguhúsnæði á sama tíma og framboðið er lítið er ekki að undra að húsaleiga heimila hafi hækkað verulega. Neytendasamtökin hafa ítrekað kallað eftir auknu framboði á leiguhúsnæði á viðráðanlegum kjörum,“ segir í frétt Neytendasamtakanna. 

Þá segir að afar rík þörf sé á því að leigjendum standi til boða öruggt langtímaleiguhúsnæði á viðráðanlegum kjörum. Neytendasamtökin ætlast því til að stjórnvöld, bæði ríkisvaldið og sveitarfélög, bretti upp ermarnar og láti verkin tala. „Þörfin er alla vega gríðarleg.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert