Sæstrengur verði skoðaður af fullri alvöru

Alþingi kom saman til fundar í morgun.
Alþingi kom saman til fundar í morgun. mbl.is/Ómar Óskarsson

Ríkisstjórnin þarf að skoða það af fullri alvöru að ráðast í lagningu sæstrengs til Bretlands í ljósi þess að orkuauðlindir landsins séu orðnar margfalt verðmætari en þær voru fyrir áratug. Þetta sagði Elín Hirst, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, á Alþingi í morgun.

Elín vitnaði til orða Harðar Arnarsonar, forstjóra Landsvirkjunar, sem sagði á ársfundi fyrirtækisins í apríl að lagning sæstrengs til Evrópu væri „líklega eitt stærsta viðskiptatækifæri sem Íslendingar hafa staðið frammi fyrir.“

Í grein sem Steinn Jónsson hagfræðingur ritaði í byrjun september segir jafnframt að ein mikilvægasta spurning sem Íslendingar standi frammi fyrir í efnahagslegu tilliti næstu árin sé hvernig eigi að nýta orkuauðlindir þjóðarinnar.

Steinn benti á í greininni að heimsmarkaðsverð á orku hafi hækkað verulega á síðustu árum og þá sérstaklega verð á endurnýjanlegri orku eins og þeirri sem Ísland hafi upp á að bjóða. „Þessi þróun hefur gert það að verkum að orkuauðlindir þjóðarinnar eru margfalt verðmætari en þær voru fyrir áratug.“

Elín vakti athygli á skrifum Steins á Alþingi í morgun og sagðist telja að unnt væri að selja umframorku sem þegar er til staðar í kerfinu með litlum tilkostnaði.

„Því legg ég til að ríkisstjórnin skoði þetta mál af fullri alvöru, til dæmis með því að sannreyna hug Breta um að þeir yrðu kaupendur þessarar orku ef ráðist yrði í byggingu sæstrengs,“sagði Elín.

Elín Hirst.
Elín Hirst.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert