„Reynum að horfa björt fram á við“

Afar fjölmennt var á almennum læknafundi sem Læknaráð Landspítala boðaði …
Afar fjölmennt var á almennum læknafundi sem Læknaráð Landspítala boðaði til í dag. mbl.is/Rósa Braga

Læknar á Landspítalanum fjölmenntu á fund nú síðdegis þar sem farið var yfir stöðu mála og mögulegar úrbætur á spítalanum. Ebba Margrét Magnúsdóttir, sérfræðilæknir á kvennadeild og varaformaður stjórnar Læknaráðs LSH, segir að fundurinn hafi verið góður og málefnalegur.

„Þetta var mjög fjölmennur fundur, þar var staðið meðfram veggjum og fólk var opinskátt en rólegt. Þarna voru raddir um að snúa bökum saman og finna lausnir um hvað við getum gert til að fólki líði betur í vinnunni. Við ætlum að reyna að horfa björt fram á við, þótt margir séu náttúrlega enn óánægðir. Það er nokkuð sem lagast ekki endilega með peningum,“ segir Ebba Margrét. 

Kergja sem tekur langan tíma að laga

Starfsumhverfiskannanir á Landspítala hafa ítrekað varpað ljósi á mikla streitu og slæma líðan hjá starfsfólki. Þetta hefur m.a. leitt til þess að læknar eru hættir að vilja ráða sig við Landspítalann sem aftur leiðir til aukins álags á þá sem eftir eru sem og aðrar stéttir spítalans sem beðnar eru um að ganga í störfin.

Sömuleiðis hafa læknar á síðustu vikum stigið fram og gefið til kynna vantraust á stjórnendum spítalans. M.a. ritaði hópur lækna bréf til heilbrigðisráðuneytisins þar sem þeir lýstu áhyggjum af því að stjórnendur spítalans hefðu ekki burði til að leysa þann mikla vanda sem skapast hefði.

Á fundinum í dag tjáðu sig bæði krabbameinslæknir og taugalæknir um erfiða stöðu og óviðunandi vinnuaðstæður á lyflækningasviði. Ebba Margrét segir vissulega séu enn læknar sem íhugi að hætta störfum. Staðan sé þó misslæm eftir deildum.

„Það er svo mikil kergja, sem tekur langan tíma að laga. Læknunum á gólfinu finnst mörgum sem gjá hafi myndast milli stjórnenda og þeirra sem vinna læknisverkin og það endurspeglast í starfsánægjunni. Margir hafa virkilegar áhyggjur, en það eru aðgerðaráætlanir í gangi og verið að vinna að mörgu. Við erum að reyna að finna hvað við getum gert til að laga þetta,“ segir Ebba Margrét.

Deildarlæknum fjölgar á næstu vikum

Björn Zoëga, forstjóri Landspítala, var meðal þeirra sem fluttu erindi á fundinum og fór meðal annars yfir það sem fram kom í Morgunblaðinu á miðvikudag að Landspítalinn sé undirfjármagnaður.

Þá segir Björn, í föstudagspistli sínum í dag, að það sé ekki bara á lyflækningasviði spítalans sem sé erfitt og mikið að gera. „[Á] hverjum degi eru mörg verk unnin af færri höndum en áður var. Um þetta fæ ég ábendingar og símtöl á hverjum degi og sé auðvitað sjálfur,“ segir Björn.

Á næstu mánuðum er að hans sögn að vænta áhrifa og árangurs af þeim aðgerðum sem kynntar voru í samvinnu við heilbrigðisráðherra í síðustu viku. Segir hann að umbætur hafi nú þegar verið gerðar á aðstöðu deildarlækna og á næsta vikum muni deildarlæknum fjölga. 

Yfirstjórn Landspítalans skilaði heilbrigðisráðherra aðgerðaráætlun á miðvikudag. Þá mun sérstakur starfshópur lækna á lyflækningasviði skila tillögum fyrir lok október.

Aðspurð segist Ebba Margrét telja að þær aðgerðir sem boðaðar hafa verið á Landspítala geti verið grundvöllur að því að bæta stöðuna.

Húsnæði Landspítalans rúmar ekki þá starfsemi sem þar fer fram.
Húsnæði Landspítalans rúmar ekki þá starfsemi sem þar fer fram. mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert