Sá köttinn á hjólastígnum

Björgunarsveitarmenn tóku þátt í leitinni að kettinum í dag.
Björgunarsveitarmenn tóku þátt í leitinni að kettinum í dag. mbl.is/Rósa Braga

Jónas Abel Mellado segir að hann hafi séð danska köttinn sem búið er að leita að í kvöld þegar hann var í hjólatúr nærri Öskjuhlíðinni. Hann gerði tilraun til að ná honum en hann var svo styggur að hann stökk í burtu.

„Ég var að hjóla á hjólastígnum á milli kirkjugarðsins og Háskólans í Reykjavík þegar kötturinn stökk inn á hjólastíginn. Ég gerði tilraun til að ná honum en hann er svo styggur að hann stökk af stígnum og út í myrkrið,“ sagði Jónas í samtali við mbl.is í kvöld.

Jónas sagði að kötturinn hefði verið svartur með hvítan blett á bringunni, sem passaði vel við lýsingu á kettinum sem leitað hefur verið að. Í tilkynningu Matvælastofnunar segir að kötturinn sé styggur við ókunnuga. Jónas sagði að kötturinn hefði verið mjög styggur og hann hefði alls ekki viljað láta handsama sig.

Jónas tilkynnti lögreglu um að hann hefði séð til kattarins.

Settu upp gildru fyrir köttinn

Leita í Öskjuhlíð að dönskum ketti

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert