Pútin vill koma til Íslands

Ólafur Ragnar Grímsson og Vladimír Pútín
Ólafur Ragnar Grímsson og Vladimír Pútín AFP

Á fundi forseta Íslands Ólafs Ragnars Grímssonar með Vladimír Pútín forseta Rússlands í Salekhard fyrr í dag kom fram ríkur áhugi forseta Rússlands á að efla samvinnu á norðurslóðum, auka viðskipti við Ísland og heimsækja landið á næsta ári.

Forsetarnir höfðu áður ásamt forseta Finnlands, Sauli Niinistö, flutt ræður á ráðstefnu um umhverfismál á norðurslóðum sem Rússneska landfræðifélagið efnir til í Salekhard, helstu borg Yamal Nenets fylkis í Norður-Rússlandi.

Í frétt á vef forseta Íslands kemur fram að í ræðu Pútins komu fram eindregnar áherslur á nauðsyn umhverfisverndar á norðurslóðum og voru þau viðhorf ítrekuð á fundi forsetanna. Jafnframt ræddu þeir um hina nýju stöðu sem skapast hefði vegna vaxandi áhuga forysturíkja í Asíu og Evrópu á málefnum Norðurslóða. Forseti Rússlands lýsti ítarlega viðhorfum og undirbúningi Rússa vegna þeirra nýju siglingaleiða sem væru að opnast vegna bráðnunar hafíss, jafnvel í 3-4 mánuði á ári hverju.

Á fundinum var einnig fjallað um aukin viðskipti milli Íslands og Rússlands, þátttöku íslenskra fyrirtækja og sérfræðinga í hitaveituframkvæmdum og nýtingu jarðhita í Rússlandi sem og fjölgun ferðamanna, m.a. í kjölfar áætlunarflugs Icelandair til Pétursborgar.

Þá fagnaði forseti Rússlands sérstaklega opnun Kjarvalssýningar í Pétursborg og öðrum menningaratburðum í tilefni af 70 ára afmæli stjórnmálasambands landanna, segir enn fremur á vef forseta Íslands.

Í ræðu sinni á ráðstefnunni í Salekhard ítrekaði forseti Íslands nauðsyn þess að forysturíki í Asíu og Evrópu, sem létu nú til sín taka í auknum mæli á Norðurslóðum, virtu þær venjur og lýðræðislegu starfshætti sem mótast hefðu í Norðurslóðasamstarfinu ásamt því að virða réttindi og menningu fólksins sem búið hefði á Norðurslóðum um aldir og árþúsund.

Þá átti forseti Íslands fund með forseta Finnlands, Sauli Niinistö, þar sem áréttaður var eindreginn vilji forsetanna til að efla samstarf sitt í málefnum Norðurslóða. Ræddu þeir m.a. undirbúning fyrir hið alþjóðlega þing Arctic Circle – Hringborð Norðurslóða – sem haldið verður í Reykjavík 12.-14. október en forsetarnir hafa á fyrri fundum sínum, á Íslandi og í Finnlandi, rætt um þá nýju nálgun í málefnum Norðurslóða sem skipulagning Arctic Circle felur í sér.

Ólafur Ragnar Grímsson og Vladimír Pútín
Ólafur Ragnar Grímsson og Vladimír Pútín AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert