Vilja semja til 12 mánaða

Þorsteinn Víglundsson framkvæmdastjóri SA, Björgólfur Jóhannsson, stjórnarformaður SA og Margrét …
Þorsteinn Víglundsson framkvæmdastjóri SA, Björgólfur Jóhannsson, stjórnarformaður SA og Margrét Kristmannsdóttir, formaður Samtaka verslunar. mbl.is/Árni Sæberg

Að mati Samtaka atvinnulífsins verður höfuðmarkmið komandi kjarasamninga að bæta lífskjör með því að ná niður verðbólgu og vöxtum. Þannig er hægt að skapa jákvæðar aðstæður í efnahagslífinu til að örva fjárfestingu umtalsvert á næstu misserum og fjölga störfum verulega á vinnumarkaði. Það er besta leiðin til að auka kaupmátt heimilanna, efla atvinnulífið og bæta fjárhag ríkisins.

Áherslur Samtaka atvinnulífsins vegna komandi kjaraviðræðna voru kynntar í dag. Samtökin leggja áherslu á að samið verði til a.m.k. 12 mánaða. Að þeim tíma loknum verði komin skýrari mynd á stefnu ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum næstu ár og áform um afnám gjaldeyrishafta. Á samningstímanum verði jafnframt lagður grunnur að nýjum vinnubrögðum við gerð kjarasamninga hér á landi. Fyrirkomulag kjarasamninga á Norðurlöndunum verði haft til hliðsjónar í ljósi þess árangurs sem þar hefur náðst eins og lýst hefur verið í úttekt aðila vinnumarkaðarins sem birt var í maí á þessu ári.

Í tilkynningu frá SA segir að kjarasamningar verði að byggja á raunverulegri getu atvinnulífsins til að greiða laun. Verði samið um innistæðulausar launahækkanir mun það rýra lífskjör fólks, veikja atvinnulífið og auka verðbólgu sem er of mikil.

„Skuldir heimilanna nema nú um 2.000 milljörðum króna, þannig að hver prósenta í verðbólgu leggur 20 milljarða króna byrði á heimilin í formi vaxta og verðbóta. Til samanburðar nema heildarlaun landsmanna ríflega 800 milljörðum króna og því hækka tekjur heimilanna um 8 milljarða króna þegar launa hækka um eina prósentu og um 5 milljarða króna eftir greiðslu  tekjuskatts. Ávinningur heimilanna af 1% hjöðnun verðbólgu er því að minnsta kosti fjórfalt meiri en af 1% launahækkun. Samstillt átak aðila vinnumarkaðarins og hins opinbera þarf til þess að vinna bug á verðbólgunni og halda aftur af verðhækkunum fyrirtækja og stofnana - í raun þarf nýja þjóðarsátt um betri lífskjör.

Fimm ár í röð hafa fjárfestingar á Íslandi verið í sögulegu lágmarki og  fjöldi starfa hefur staðið í stað á vinnumarkaðnum.  Störfum fjölgar ekki nema umsvif í atvinnulífinu aukist en með markvissri sókn má vinna bug á núverandi atvinnuleysi og bjóða þeim Íslendingum störf sem fluttu af landi brott í kjölfar efnahagskreppunnar,“ segir í tilkynningu SA.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert