Segja lögin hafa verið illa unnin

Ferðafrelsi, samtök áhugafólks um náttúruvernd og ferðafrelsi fagna þeirri ákvörðun umhverfisráðherra að afturkalla náttúruverndarlög þau sem eiga að taka gildi á næsta ári.  Yfir 16 þúsund manns skrifuðu undir mótmæli gegn lögunum „enda voru þau illa unnin og aðeins fáir útvaldir fengu raunverulega aðkomu að vinnunni við gerð þeirra, þröngur hópur sem endurspeglar á engan hátt þá fjölmörgu aðila sem lögin ná yfir,“ segir í fréttatilkynningu frá Ferðafrelsi.

 „Það er vægt til orða tekið að um þessi lög var gríðarleg ósátt og í raun óskiljanlegt að ákveðnir aðilar skuli nú hafa svo hátt um þessa ákvörðun ráðherrans og mótmæla henni.  Það hlýtur að vera vilji allra að hafa náttúruverndarlög sem raunverulega vernda náttúruna og raunverulega er hægt að fara eftir, lög sem almenn sátt er um og þar sem meðalhófs er gætt.  Slíkt er ekki í þessum lögum. 

 Þess ber að geta að ýmsir hlutir voru lagfærðir á lokasprettinum áður en lögin voru samþykkt, en andi laganna einkennist enn af óþörfum boðum og bönnum.  Afgreiðslan á Alþingi fór fram á miklum hraða undir blálok síðasta þings síðustu ríkisstjórnar, þar er varla hægt að tala um vönduð vinnubrögð.  Það er eðlilegt að leggja þessi lög til hliðar, nota það sem er gott úr þeim og bæta annað.  Ná sátt allra, en ekki bara sumra,“ segir í tilkynningu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert