Slóðavinir styðja afturköllun náttúrulaga

Slóðavinir styðja ákvörðun umhverfisráðherra,
Slóðavinir styðja ákvörðun umhverfisráðherra, Ljósmynd Slóðavinir

Stjórn Ferða- og útivistarfélagsins Slóðavina lýsir yfir einlægum stuðningi við ákvörðun ráðherra um að leggja fram frumvarp um að lög um náttúruvernd sem samþykkt voru á seinasta þingi og áttu að taka gildi 2014 verði afturkölluð.

 Allt frá því að endurskoðun náttúrverndarlaga hófst hefur mikilvægum hagsmunaaðilum verið haldið frá vinnunni og því gefst hér tækifæri til að ná fram víðtækri sátt milli þeirra sem vilja vernda og þeirra sem vilja njóta, segir í fréttatilkynningu sem Slóðavinir hafa sent á fjölmiðla.

„Það er mat stjórnar Slóðavina að nýsamþykkt lög séu gróf aðför að ferðafrelsi útivistarfólks, og í engu samræmi við ríkjandi ferðavenjur um náttúru Íslands.  Að ætla sér að stjórna náttúruvernd með boðum og bönnum án aðkomu hagsmunaaðila, þ.e. ferðafólks,  er fyrirfram dæmt til að mistakast. Slíkt myndi draga úr vægi laganna sem stjórntæki.  Akstur um vegslóðir er til að mynda gerður mjög tortryggilegur í lögunum þrátt fyrir vísbendingar um að akstur utan vega hafi verulega dregist saman. Slóðavinir hvetja stjórnvöld til að taka fræðslu fram yfir boð og bönn og fara á þann veg fremstir í fylkingu með vísun í jákvæða eftirbreytni frekar en hótanir um refsingar.

Það er umhugsunarefni hvers vegna skipulagsmál vegslóða í heild eru tekin inn í náttúruverndarlög undir yfirskriftinni „Akstur utan vega“ í stað þess að umsýsla með vegslóðir verði hluti af heildar vegakerfi landsins og heyri undir ráðuneyti samgöngumála,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert