Byrlað nauðgunarlyf í miðborginni

Miðborg Reykjavíkur
Miðborg Reykjavíkur mbl.is/Ómar Óskarsson

„Ég hafði verið með vinkonum mínum niðrí bæ. Síðan fór ég inn á þennan stað þar sem þetta gerðist en var ekki búin að drekka það mikið,“ segir Hildur Kristín Stefánsdóttir, en henni var byrlað nauðgunarlyf á skemmtistað í miðborginni á laugardaginn. Hún skrifaði pistil á facebooksíðu sína þar sem hún lýsti upplifuninni, en búið er að dreifa pistlinum á annað hundrað sinnum.

Hún vildi ekki nafngreina staðinn því hún segist vita um að svona lagað gerist víðs vegar í borginni og ekki við skemmtistaðinn að sakast heldur gerandann.

„Ég fékk mér einn drykk á þessum stað og þá fór mér fljótlega að líða undarlega. Það varð mjög skýr skipting á kvöldinu hjá mér, annars vegar áður en þetta gerðist og hins vegar eftir það. Ég man mjög gloppótt allt sem gerðist eftir að ég drakk þennan eina drykk þarna.“

Hún segist muna mjög óljóst eftir því sem gerðist þar inni. „Allt í einu er ég búin að týna fólkinu sem ég var með og ákveð þá að fara út til að reyna að finna kærastann minn sem var líka í bænum. Ég hitti hann fljótlega, en man ekkert eftir að hafa gengið upp Laugaveginn.“

Hrundi niður á baðherbergisgólfið

Hildur segir að sér hafi liðið ömurlega, hún hafi byrjað að kasta upp. „Hann sér að það er augljóslega ekki allt í lagi með mig, þannig að hann hjálpar mér að komast heim til okkar. Hann segir að ég hafi ekki svarað honum þegar hann talaði við mig, og að ég hafi verið mjög ólík sjálfri mér og algjörlega út úr heiminum.“

„Ég man eiginlega ekki eftir neinu, en ég hrundi niður á baðherbergisgólfið og gat ekki staðið upp. Hann var að reyna að vekja mig. Þá fann ég hvað þetta var ógeðslegt, ég hef ekki upplifað neitt þessu líkt.“

Hún segist hafa verið alveg máttlaus þar sem hún lá á baðherbergisgólfinu. „Tilhugsunin um að ég hefði getað verið ein þegar það gerðist er ógeðsleg. Ég gat ekki staðið upp. Líðanin daginn eftir var líka svo hræðileg. Ég hef aldrei áður gubbað svona harkalega, það er eins og það væri eitur í líkamanum sem hann var að reyna að losa sig við.“

Um kvöldið segist hún ekki hafa verið í sambandi við umheiminn, þannig að hún áttaði sig í rauninni ekki á hvað væri að gerast. „Svo þegar ég vaknaði daginn eftir púslaði ég þessu öllu saman. Maður þekkir orðið sín mörk þegar kemur að áfengisdrykkju, en þetta var allt öðruvísi. Ég var í fínu ástandi áður en þetta gerðist en svo rann allt einhvernveginn saman.“

Hildur segir upplifunina af þessu passa við þær upplýsingar sem hún hafi fengið um afleiðingar þess að verða fyrir árás sem þessari. „Það getur liðið allt upp í klukkustund þangað til maður missir alla stjórn.“

Erfitt að koma í veg fyrir þetta

„Það er óþolandi að verða fyrir þessu því vinkonur mínar hafa orðið fyrir svona löguðu. Eftir að það gerðist hef ég verið mjög passasöm og skammað vinkonur mínar fyrir að leggja frá sér drykki. Það þarf svo lítið. Staðurinn var mjög troðinn og ég var að tala við fólk þannig að maður horfir ekki á glasið sitt allan tímann. Það þarf ekki nema nokkrar sekúndur til að þetta gerist.“

Hún ítrekar að ástæðulaust sé að sakast við skemmtistaðinn sjálfan. „Ég veit að þetta gerist allsstaðar, ekki bara þarna. Sökudólgurinn er ekki þessi staður heldur eitthvað ógeð sem var þarna, og svona ógeð eru allsstaðar.

Hildur segir oft erfitt fyrir þá sem ættu að bregðast við svona löguðu, eins og dyraverði og barþjóna, að sjá í hvernig ástandi fólk er. „Ég fór bara útaf staðnum áður en það var hægt að átta sig á hvað gerðist. Það er ekkert eitt sem kemur upp um að fólk er í þessu ástandi, það getur verið mismunandi eftir fólki. Þetta getur alveg litið út eins og ofurölvun.“

„Mér fannst ég eiginlega skyldug til að segja frá þessu af því að það fór ekki verr, þess vegna skrifaði ég þennan pistil. Það verður að segja frá þessu og minna á að þetta getur komið fyrir alla. Ég er samt í slæmu ástandi og finn fyrir þessu enn, ég er til dæmis ekki í vinnunni í dag. Maður missir líka smá trúa á fólki þegar maður lendir í þessu, en ég reyni að hugsa ekki mikið um það. Ég var þannig séð ótrúleg heppin, þetta hefði í rauninni ekki getað farið mikið betur þó svo að gærdagurinn hafi verið sá versti sem ég hef upplifað.“ 

Hildur Kristín Stefánsdóttir
Hildur Kristín Stefánsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert