Ummæli um Egil ómerkt

Egill Einarsson
Egill Einarsson Morgunblaðið/Rósa Braga

Héraðsdómur Austurlands hefur ómerkt ummæli sem tvítug kona lét falla á samskiptavefnum Facebook um fjölmiðlamanninn Egil Einarsson. Auk þess var konan dæmd til að greiða 30 þúsund króna sekt í ríkissjóð og 100 þúsund krónur í bætur til Egils. Þá er henni gert að greiða 800 þúsund krónur í málskostnað.

Ummælin voru sett fram á Facebook síðu sem stofnuð var í kjölfar þess að viðtal við Egil birtist í Monitor, fylgiriti Morgunblaðsins, í nóvember 2012. Ummælin voru „mögulega stelpunar [sic] sem gillz nauðgaði, biðjast afsökunar að dreifa blaði þar sem nauðgari þinn er að segja að þú sért að ljúga út um allan skólann þinn“.

Í niðurstöðu dómsins segir að ummælin sem látin voru falla opinberlega hafi falið í sér afdráttarlausa fullyrðingu um að Egill hefði gerst sekur um nauðgun. Þau hafi verið úr hófi fram og farið út fyrir mörk þess tjáningarfrelsis sem konan nýtur. Þá hafi falið í sér ærumeiðandi aðdróttun í garð Egils.

Þá var til þess litið að ummælin voru alvarlegs eðlis og birtust opinberlega fyrir ótilgreindum hópi fólks. Hvað varðar bætur til Egils leit dómurinn til þess að ummælin hafi ekki bætt miklu við þann miska sem Egill hafði orðið fyrir við opinbera umfjöllun um kærumálin sem varð tilefni ummælanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert