„Neyðarúrræði rétthafa“

The Pirate Bay
The Pirate Bay

„Þessar aðgerðir eru neyðarúrræði rétthafa þar sem allar leiðir hafa nú verið fullreyndar án viðhlítandi árangurs, þ.á.m. kærur til lögreglu og samningaleiðir.“ Þetta segir í yfirlýsingu réttahafasamtaka sem farið hafa fram á lögbann á aðgengi að tveimur deilisíðum.

Um er að ræða deilisíðurnar deildu.net og thepiratebay.sx. Verði fallist á lögbannið munu viðskiptavinir stærstu netþjónustufyrirtækja landsins ekki komast inn á síðurnar.

Í yfirlýsingu samtakanna segir að með þessum aðgerðum sé ekki verið að skerða rétt einstaklinga til tjáningarfrelsis enda sé með þeim verið að koma í veg fyrir lögbrot og vernda eignarrétt og fjárhagsafkomu höfunda, flytjenda og framleiðenda.

„Fjárhagslegt tjón rétthafa höfunda, flytjenda og framleiðanda er nú þegar gífurlegt af völdum ólögmætrar starfsemi af þessu tagi og við óbreytt ástand og lagaumhverfi eiga rétthafar ekki annarra kosta völ en að verja lögmæta hagsmuni sína með lögbannsaðgerðum. Verður slíkum aðgerðum áfram haldið svo lengi sem þörf krefur.“

Að lögbannsbeiðninni standa eftirfarandi rétthafasamtök: SÍK – Samband íslenskra kvikmyndaframleiðenda, STEF - Samband tónskálda og eigenda flutningsréttar, FHF - Félag hljómplötuframleiðenda og SMÁÍS - Samtök myndrétthafa á Íslandi.

Frétt mbl.is: Fara fram á lögbann

Deildu.net
Deildu.net
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert