73 þúsund ferðamenn í september

Ferðamenn við Goðafoss.
Ferðamenn við Goðafoss. mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson

Samkvæmt talningum Ferðamálastofu fóru um 73 þúsund erlendir ferðamenn frá landinu um Flugstöð Leifs Eiríkssonar í september í ár eða 8.500 fleiri ferðamenn en í september í fyrra. Aukningin nemur 13,2% milli ára.

Fjöldi ferðamanna hefur þrefaldast á því tólf ára tímabili (2002-2013) sem Ferðamálastofa hefur haldið úti talningum. Ferðamannafjöldinn hefur farið úr 24.533 árið 2002 í 73.189 árið 2013.

Aukningin hefur verið að jafnaði 10,9% milli ára en miklar sveiflur hafa verið í fjölda milli ára sbr. myndir hér að neðan gefa til kynna. Hér má annars vegar sjá fjölda ferðamanna hvert ár og hins vegar hlutfallslega breytingu á milli ára.

Frá áramótum hefur 639.951 erlendur ferðamaður farið frá landinu, um 103 þúsund fleiri en á sama tímabili í fyrra. Aukningin nemur 19,2% milli ára. Um 40% fleiri Bretar hafa heimsótt landið, fjórðungi fleiri N-Ameríkanar, fjórðungi fleiri ferðamenn frá löndum sem flokkast undir annað og um 15% fleiri Mið- og S-Evrópubúar. Norðurlandabúum hefur hins vegar fjölgað mun minna eða um 2,9%.

Af einstaka þjóðernum voru flestir ferðamenn í september frá Bandaríkjunum (15,8), Bretlandi (11,0%), Þýskalandi (10,5%) og Noregi (9,2%). Þar á eftir komu Danir (6,7%), Svíar (5,3%), Frakkar (5,3%) og Kanadamenn (4,0%). Samtals voru þessar átta þjóðir um tveir þriðju (67,8%) ferðamanna í september.

Af einstaka þjóðum fjölgaði Bretum, Bandaríkjamönnum og Þjóðverjum mest milli ára í september. Þannig komu 1.774 fleiri Bretar í september ár, 1.727 fleiri Bandaríkjamenn og og 1.251 fleiri Þjóðverjar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert