Mótmælendur sungu ættjarðarsöngva

Fjöldi fólks tók þátt í mótmælum gegn lagningu nýs Álftanesvegar.
Fjöldi fólks tók þátt í mótmælum gegn lagningu nýs Álftanesvegar. mbl.is/Rosa Braga

Nokkur hundruð manns mættu til mótmæla fyrir utan innanríkisráðuneytið við Sölvhólsgötu í hádeginu og sungu þar ættjarðarsöngva undir styrkri stjórn Gunnsteins Ólafssonar Hraunavinar. Í kjölfarið var bankað upp á og óskað eftir samtali við Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra. Hún var hins vegar ekki við enda stödd á Austurlandi þar sem hún opnar formlega Norðausturveg á morgun.

Mótmælendur fara fram á að framkvæmdum við nýjan Álftanesveg verði hætt, alla vega á meðan dómsmál vegna framkvæmdanna verða til lykta leidd. Úr ráðuneytinu fengust þær upplýsingar að ráðherra væri staddur á Austurlandi í dag. Aðstoðarmaður ráðherra segir í samtali við mbl.is að Hraunavinir hafi verið upplýstir um það í morgun að Hanna Birna yrði stödd á Egilsstöðum í dag og á morgun. Hún mun á morgun opna formlega Norðausturveg til Vopnafjaðar. Það hafi verið ákveðið fyrir löngu síðan og því ekki hægt að hætta við ferðina.

Um er að ræða tvö mál og snýst annað þeirra um lögbann á framkvæmdina á þeim forsendum að hún sé ólögmæt og hitt um það hvort Hraunavinir og önnur umhverfisverndarsamtök séu lögaðilar vegna málsins.

Bæði málin eru nú hjá Hæstarétti sem þarf annars vegar að úrskurða um lögbannsbeiðnina og hins vegar um þann hluta lögaðilamálasins sem snýr að kröfu umhverfisverndarsamtakanna um að leitað verði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins um það hvort þau séu lögaðilar að því.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert