Hindra stækkun vinnusvæðisins

Lögreglumenn á staðnum sl. mánudag.
Lögreglumenn á staðnum sl. mánudag. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

Mótmælendur mættu við Gálgahraun snemma í morgun eins og undanfarna morgna til þess að mótmæla framkvæmdum við nýjan Álftanesveg. Hópur mótmælenda fór inn á vinnusvæðið í morgun og settist niður fyrir framan vinnuvélar. Verktakinn bað þá um aðstoð lögreglu sem kom á staðinn og bað mótmælendur að fara út af vinnusvæðinu sem þeir gerðu. Þess má geta að tvennar sögur fara af því hvort svæðið þar sem nýjum vegi er ætlað að liggja heiti Gálgahraun eða Garðahraun.

Tæplega tuttugu lögreglumenn mættu á staðinn að sögn Ragnhildar Jónsdóttur félaga í Hraunavinum sem verið hefur á staðnum í morgun. Hún segir í samtali við mbl.is að lögreglumennirnir hafi farið eftir að mótmælendur fóru út af vinnusvæðinu utan tvo lögreglumenn sem hafi orðið eftir. Mótmælendur, sem hafi verið um 10-12 í morgun, hafi ekki reynt að fara aftur inn á vinnusvæðið og lögreglumennirnir tveir hafi að lokum farið líka. Hún segir að mótmælendur ætli að vera áfram á staðnum í dag og fólk skiptist á að vakta svæðið.

„Við erum núna við endann á vinnulínunni hjá þeim og það stendur ekki til að hleypa þeim þegjandi og hljóðalaust framhjá því,“ segir Ragnhildur. Verktakinn hafi afmarkað vinnusvæðið með keilum og færi þær síðan smám saman lengra eftir því sem svæðið undir veginn lengist. Þrátt fyrir að lögreglan hafi yfirgefið svæðið segir Ragnhildur að greinilegt sé að hún fylgist með úr fjarlægð. Þannig hafi lögreglubifreiðar sést aka framhjá svæðinu.

Ragnhildur bætir því við að hún sé afar ósátt við viðbrögð lögreglunnar í gær þegar hún hafi haft samband við Neyðarlínuna og óskað eftir aðstoð lögreglunnar þar sem mótmælendum hafi fundist þeim ógnað á svæðinu. Hún hafi fengið þau svör að lögreglan væri á staðnum. Hún hafi bent á að það væri hún vissulega en ekki til þess að vernda almenna borgara heldur vinnuvélar. Hún hafi fengið samband við lögreglumann sem hafi neitað að verða við beiðni hennar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert