Makrílsamningar ólíklegir

Ólíklegt er að samningar náist í makríldeilunni í viðræðum strandríkjanna við Norðaustur-Atlantshafið sem nú standa yfir í London. Þetta kom fram í ávarpi Sigurðar Inga Jóhannssonar, sjávarútvegsráðherra, á aðalfundi Landssambands íslenskra útvegsmanna (LÍÚ) sem settur var í dag á Nordica Hilton í Reykjavík.

„Við höfum sætt því að vera hótað alls kyns viðskiptahindrunum ef við ekki göngum í takt við risaveldið Evrópusambandið. Við höfum staðist allar þær sóknir. Við höfum hins vegar verið tilbúin til þess að setjast niður til viðræðna og haft frumkvæði að viðræðum á síðustu mánuðum og vikum en sagt að það gerum við þrátt fyrir hótanir. Ekki vegna þeirra. Og sú samningalota sem er í gangi núna í London og lýkur á morgun mun væntanlega ekki skila þeim árangri sem að menn höfðu vænst. Við munum áfram berjast fyrir okkar hagsmunum. Við gefum ekkert eftir þar,“ sagði Sigurður.

Hins vegar væru samningar sameiginlegt markmið allra sem að deilunni kæmu. Hann benti á að íslensk stjórnvöld hefðu lagt sitt að mörkum til þess að reyna að ná samningum og meðal annars haft frumkvæði að fundum í deilunni á undanförnum mánuðum. Það hefðu þau gert þrátt fyrir hótanir Evrópusambandsins um viðskiptaþvinganir en ekki vegna þeirra. „Það er okkur gríðarlega mikilvægt að við náum samningum um þennan stofn þannig að við getum nýtt hann með sama skynsamlega hætti og aðra stofna. Að því verður unnið áfram þrátt fyrir að ólíklegt sé að það fáist niðurstaða í þessari lotu á morgun.“

Samningaleiðin farin í sjávarútvegi

Ráðherrann ræddi ennfremur á fundinum um mikilvægi þess að breyta umræðunni um íslenskan sjávarútveg sem hefði yfirleitt verið mjög neikvæður og leiðin til þess væri að upplýsa almenning betur um hann og hvað hann gengi út á. Sömuleiðis ræddi hann um þá leið sem ný ríkisstjórn ætlaði að fara varðandi framtíð sjávarútvegarins sem yrði byggð á tillögum sáttanefndarinnar frá 2010. Svokallaðri samningaleið sem gerði ráð fyrir að útgerðaraðilar fengju úthlutað veiðiheimildir til langs tíma, 20-25 ár hugsanlega með framlengingarákvæði, til þess að tryggja nauðsynlegan stöðugleika í greininni og svigrúm til fjárfestinga.

Hins vegar um leið yrði tryggt að þjóðin væri skráður eigandi auðlindarinnar í hafinu í kringum landið og fengi af henni eðlilegan arð í gegnum veiðigjöld. En útfærsla þeirra yrði að vera sanngjörn fyrir báða aðila.

Skapar samfélaginu öllu betri kjör

Adolf Guðmundsson, formaður LÍÚ, kom inn á hliðstæð atriði og Sigurður Ingi í ræðu sinni. Meðal annars neikvæða umræðu um íslenskan sjávarútveg hér á landi. Sagði hann það skjóta skökku við að góð afkoma margra af stærstu sjávarútvegsfyrirtækja landsins fværi slegið upp sem neikvæðum fréttum í fjölmiðlum og umræðunni í landinu. Það gæti ekki verið annað en gleðiefni að fyrirtæki í sjávarútvegi eins og í öðrum greinum gengi vel. „Það skapar ekki eingöngu eigendum fyrirtækja í sjávarútvegi og starfsfólki betri kjör heldur samfélaginu öllu.“

Hann kom einnig inn á makríldeiluna og sagði að LÍÚ hefði frá upphafi lagt áherslu á að samningar næðust um makrílveiðarnar. „Við hljótum að halda kröfunni um sanngjarnan hlut úr stofninum til streitu en ljóst má vera að ef að loka á samningum verða allir aðilar að gefa eitthvað eftir af sínum ýtrustu kröfum. LÍÚ stendur því þétt að baki stjórnvöldum í viðleitni sinni til að semja við nágrannaþjóðir okkar um veiðar á makríl.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert