Ekkert rafmagn að óbættu tjóni

Sturla Böðvarsson, fyrrverandi samgönguráðherra.
Sturla Böðvarsson, fyrrverandi samgönguráðherra. mbl.is/RAX

Stjórnendur Landsvirkjunar mega ekki setja virkjanir og aðrar eignir þessa mikla fyrirtækis að veði vegna sæstrengs í þágu Breta,“ segir Sturla Böðvarsson, fyrrverandi samgönguráðherra, á Facebook-síðu sinni í dag vegna umræðunnar um mögulega sölu raforku til Bretlands í gegnum sæstreng frá Íslandi.

„Það væri fróðlegt að vita hvaða orkuver eigi að byggja til þess að framleiða orkuna sem á að tryggja almenningi í Bretlandi örugga og umhverfisvæna orku. Og væntanlega á sú orka að vera hagfelldari en sú sem verður í boði þar í framtíðinni,“ segir Sturla og vísar í frétt breska dagblaðsins Guardian þess efnis að Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, sé á leið til Bretlands síðar í vikunni til þess að hvetja þarlenda fjárfesta til þess að leggja fé í slíkan sæstreng.

„Það vekur hinsvegar spurningar hvers vegna Landsvirkjun stendur fyrir áformum um lagningu sæstrengs. Landsnet hf. var stofnað árið 2005 til að annast flutning raforku og stjórnun raforkukerfisins. Ég hefði talið eðlilegt að Landsnet hf. sæi um alla vinnu vegna könnunar á hagkvæmni þess að leggja og reka sæstreng til þess að selja okkar umhverfisvænu orku,“ segir hann ennfremur.

Sturla segir að forsetinn ætti frekar að nota fundinn til þess að tilkynna Bretum að þeir fái einungis keypta orku um sæstreng ef þeir bæti okkur að fullu það tjón sem þeir bökuðu okkur með því að beita Ísland hryðjuverkalögum þegar Íslendingar voru í mestum vanda haustið 2008: „Sú aðgerð stjórnar breska Verkamannaflokksins er trúlega einstök í samskiptum „vina“-þjóða. Nota þarf hvert tækifæri sem gefst til þess að minna Breta á þá ótrúlegu aðgerð.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert