Handrukkun vegna sjö þúsund króna?

Atvikin áttu sér stað við Tækniskólann.
Atvikin áttu sér stað við Tækniskólann.

„Það var fyrir einhverju síðan að ég og vinir mínir keyptum ólöglega hluti af honum. Við ætluðum að leggja í púkk og áttum að greiða eftir einhvern tíma. Svo hættu allir við að borga og þá var skuldin öll sett á mig. Og ég ætlaði ekki að borga fyrir alla,“ sagði fórnarlamb meintrar handrukkunar í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.

Meintir árásarmenn gáfu einnig skýrslu fyrir dóminum í dag en þeim er gefið að sök að hafa veist að manninum við Tækniskólann í Reykjavík. Ástæðan var umrædd skuld. Mönnum bar þó ekki saman um upphæð hennar. „Um morguninn var ég í ræktinni með [...] og það barst í tal að ég ætti ekki pening, að þessi [...] hefði fengið hjá [...] fimmtíu þúsund krónur fyrir löngu og að ég væri búinn að gera ítrekaðar tilraunir til að fá hann aftur. Ég var búinn að heyra að hann væri í Tækniskólanum,“ sagði annar þeirra sem ákærður er fyrir árásina. Fórnarlambið svaraði því hins vegar til að skuldin hefði hljóðað upp á sjö þúsund krónur.

Þá bar framburði ákærðu og fórnarlambsins um atvik máls við Tækniskólann alls ekki saman. „Ég tók [...] með mér til að koma í veg fyrir vesen. [...] fer inn að ná í hann og þegar hann er að leiða hann út kem ég að. Þá tryllist hann, öskrar á okkur, kýlir mig og hleypur aftur inn í skólann,“ sagði sá sem skuldina átti.

Fórnarlambið lýsti því hins vegar að umræddur félagi hefði kynnt sig sem lögreglumann og dregið upp hníf. „Þeir otuðu hnífnum að mér og gripu mig. Þá brutust út átök og [...] kom aftan að mér og veitti mér fast högg aftan á höfuðið. Það kom enginn að hjálpa mér en ég náði að losna og hljóp í burtu. Ég skildi eftir bakpokann minn og úlpu.“

Maðurinn sem sagður er hafa kynnt sig sem lögreglumann sagði það alrangt og hafnaði því alfarið að hafa verið með hníf. „Ég spurði bara hvort hann vildi koma með mér. Ef hann hefði sagt nei þá hefði hann mátt það. Það voru engar ógnanir og ég passaði mig á að vera kurteis. [...] Þegar við komum fyrir hornið og [...] fer að spyrja hann út í peninginn fer hann að öskra og það endar með að hann rífur sig úr jakkanum og hleypur burtu.“

Sá sem skuldina átti tók úlpuna og bakpokann en í honum voru meðal annars sími og tölvubúnaður. Verjandi hans spurði hvort munirnir hefðu skilað sér aftur til fórnarlambsins og játti hann því. Spurði saksóknari þá hvort maðurinn hafi skilað þeim sjálfur. „Nei, lögreglan kom,“ svaraði hann.

Annar þeirra sem ákærður er fyrir handrukkunina er einnig ákærður fyrir að hafa framið vopnað rán í matvöruverslun og fyrir að reyna að ræna skartgripaverslun. Sá þáttur málsins var einnig tekinn fyrir í héraðsdómi í dag og var greint frá honum á mbl.is fyrr í dag.

Frétt mbl.is: Reyndu rán með rörasprengju

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert