Álögur hafa hækkað um 440 þúsund

Júlíus Vífill Ingvarsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.
Júlíus Vífill Ingvarsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. mbl.is/Ómar Óskarsson

Meðalfjölskylda í Reykjavík mun á næsta ári greiða rúmlega 440 þúsund krónum meira í skatta og gjöld til Reykjavíkurborgar en hún gerði í upphafi yfirstandandi kjörtímabils. Þetta segir í tilkynningu frá Sjálfstæðisflokknum, en fyrri umræða um frumvarp að fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fór fram í dag.

„Meirihluti Besta flokksins og Samfylkingarinnar hefur þannig reynst fjölskyldum í Reykjavík dýrkeyptur. Allt kjörtímabilið hefur borgarstjórnarmeirihlutinn seilst í vasa borgarbúa í stað þess að hagræða í rekstri eins og fjölskyldur og fyrirtæki hafa orðið að gera. Frá því að meirihluti Besta flokks og Samfylkingar tók við árið 2010 hafa skatttekjur hækkað verulega eða um 26%. Þær voru tæpir 50 milljarðar árið 2010 en eru áætlaðar 63 milljarðar á næsta ári samkvæmt áætluninni.

Flókið og þungt borgarkerfi eftir fjölmargar skipulagsbreytingar er það sem stendur upp úr þegar litið er yfir verk meirihluta Besta flokksins og Samfylkingarinnar. Lítið hefur verið hagrætt, þvert á móti eykst kostnaður víða. Meirihlutinn hefur fundið upp á mörgum nýjum verkefnum og hlaðið utan á kerfið þannig að það vex ár frá ári og kostnaður eykst,“ segir í fréttatilkynningu frá Sjálfstæðisflokknum.

Skuldir rúmlega tvöfaldast

„Skuldabyrði borgarsjóðs hefur aukist mikið undir stjórn núverandi meirihluta eða um 115%. Frá árinu 2010 hafa hreinar skuldir borgarsjóðs vegna A-hluta hækkað um 26 milljarða króna eða úr 23 í 49 milljarða. Aukningin nemur 6,5 milljörðum króna á ári frá árinu 2010, sem jafngildir því að allt kjörtímabilið hafi skuldir aukist um 750 þúsund kr. á klukkustund. Niðurstaðan er áfellisdómur yfir fjármálastjórn meirihlutans í borgarstjórn.

Fjárhagsáætlanir meirihlutans standast ekki Reykjavíkurborg hefur verið rekin með tapi undir stjórn Samfylkingar og Besta flokksins þrátt fyrir að í fjárhagsáætlunum meirihlutans hafi verið lagt upp með háleit markmið um rekstrarafgang. Á síðasta kjörtímabili skilaði rekstur Reykjavíkurborgar hins vegar afgangi undir forystu Sjálfstæðisflokksins þrátt fyrir mikla erfiðleika í efnahagslífi.

Til að breiða yfir lélega fjármálastjórn, leitast borgarstjórnarmeirihlutinn við að fegra niðurstöður rekstrarins með tilfærslum á rekstrareiningum. Til dæmis ætlar meirihlutinn nú að færa eignir og rekstur Bílastæðasjóðs úr B-hluta yfir í A-hluta, að því er virðist eingöngu í því skyni að fegra stöðu borgarsjóðs og gera samanburð á fjármálum borgarinnar á milli ára erfiðari en ella,“ segir í tilkynningunni.

Kosningar í nánd

„Fjárhagsáætlun ber með sér að kosningar eru í nánd. Ekki er tekist á við reksturinn og ekki er brugðist við 2ja milljarða tapi á borgarsjóði fyrstu sex mánuði ársins. Það er í samræmi við reksturinn allt þetta kjörtímabil. Borgarsjóður hefur verið rekinn með tapi öll árin sem þessi meirihluti hefur stýrt rekstrinum. Við það bætist að hreinar skuldir borgarsjóðs hafa aukist á þessu kjörtímabili um 115%. Hreinar skuldir hafa aukist um 26 milljarða og væntanlega eru þetta frekar óþægilegar niðurstöður vegna þess að það á að fegra fjárhagsáætlunina með tilfærslum í bókhaldi,“ segir Júlíus Vífill Ingvarsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert