Fékk skilnað frá mögulega látnum eiginmanni

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur. mbl.is/Hjörtur

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur fallist á kröfu konu og veitt henni lögskilnað með dómi. Hjónin hafa ekki hist frá árinu 1976 og hefur konunni ekki tekist að hafa upp á manninum, sem er breskur. Margar tilraunir hafa verið gerðar og segir í stefnu óvíst hvort maðurinn sé enn á lífi.

Konan gekk í hjónaband með manninum 21. júlí 1975 í Lundúnum. Hún flutti ein til Íslands í október ári síðar en frá þeim tíma hefur hún hvorki hitt eiginmann sinn né heyrt í honum eða af honum.

Reynt hafi verið að fá upplýsingar um manninn hjá breska sendiráðinu á Íslandi en þar hafi fengist þau svör að sendiráðið veitti ekki slíkar upplýsingar. Einnig hafi verið haft samband við Hjálpræðisherinn í Bretlandi sem aðstoði fólk við að leita að týndum ættingjum. Þar hafi lögmanni konunnar verið tjáð að Hjálpræðisherinn gæti ekki aðstoðað við leit að týndum mökum.

Lögmaður konunnar leitaði til utanríkisráðuneytisins auk sendiráðs Íslands í Bretlandi sem hafi vísað á síðuna 192.com sem eigi að aðstoða fólk við að hafa uppi á týndum einstaklingum. Engin þessara tilrauna bar árangur. Konan hafi því höfðað málið.

Í niðurstöðu dómsins segir að ekkert hafi komið fram í málinu sem hnekki þeirri fullyrðingu konunnar að hún og eiginmaður hennar hafi slitið samvistir árið 1976 og hafi ekkert samband verið þá. Konan kvað hjúskaparstofnunina hafa verið til málamynda.

Féllst dómurinn á kröfuna og veitti konunni lögskilnað.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert