Barði fyrrverandi unnustu

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur. mbl.is/Hjörtur

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt karlmann í níu mánaða fangelsi fyrir líkamsárás gegn fyrrverandi sambýliskonu sinni. Þetta er í þriðja sinn sem hann er dæmdur fyrir líkamsárás.

Maðurinn var ákærður fyrir að hafa ráðist með ofbeldi á fyrrverandi unnustu sína á heimili hennar. Konan lá þá í rúmi í svefnherbergi sínu. Maðurinn var ákærður fyrir að hafa slegið hana í andlitið, þar sem hún lá á gólfi svefnherbergisins, sest klofvega yfir hana, slegið hana í höfuð, andlit og hendur og slegið höfði hennar í gólfið og síðan í stofu íbúðarinnar sparkað í líkama hennar.

Ákærði neitaði sök. Kvaðst hann einungis hafa löðrungað konuna þessa nótt með flötum lófa og hafi hún ekki hlotið áverka af.

Dómari taldi hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi veist að brotaþola með þeim hætti er í ákæru greinir. 

Ákærði er 45 ára gamall og á að baki langan brotaferil. Hann hefur tvisvar áður hluti dóm fyrir líkamsárás. Annar dómurinn hljóðaði upp á 11 mánaða fangelsi, en hinn 8 mánaða fangelsi. Hann hefur auk þess verið dæmdur fyrir fíkniefnabrot, umferðalagabrot, skjalafals, húsbrot, þjófnað, fjársvik og peningafals.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert