Fáar konur í lögreglunni áhyggjuefni

Hanna Birna Kristjánsdóttir, innanríkisráðherra.
Hanna Birna Kristjánsdóttir, innanríkisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Brottfall kvenna úr lögreglunni og lágt hlutfall lögreglukvenna er áhyggjuefni. Þetta kom fram í máli Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, innanríkisráðherra, á Alþingi í dag þar sem hún var til andsvara í sérstakri umræðu um stöðu kvenna innan lögreglunnar en málshefjandi var Björt Ólafsdóttir, þingmaður Bjartrar framtíðar. Vísaði hún í þeim efnum í könnun sem unnin var að frumkvæði Ríkislögreglustjóra í samstarfi við félagsvísindastofnun Háskóla Íslands.

Ráðherrann benti á að hlutfall lögreglukvenna væri mjög lágt eða aðeins 12,6% starfandi lögreglumanna þrátt fyrir að hlutfall þeirra af brautskráðum nemendum í lögregluskólanum væri mun hærra. „Þetta hlutfall starfandi lögreglukvenna er hærra í flestum löndum sem við berum okkur saman við. Það er ekki þannig að þetta sé staðreynd sem öll lönd glími við. Við erum með mun lægra hlutfall en mjög mörg lönd í kringum okkur.“

Hanna Birna sagði þessa stöðu ekki síður alvarlega í ljósi þess að skýr vilji löggjafans til þess að fjölga lögreglukonum lægi fyrir og hefði gert samkvæmt lögum frá árinu 2002. „Þess vegna er þetta brottfall kvenna úr lögreglunni alvarlegt og hefur verið mikið áhyggjuefni í nokkur ár og meðal annars hjá lögreglunni sjálfri og það er ástæðan fyrir því að þetta er sérstaklega skoðað.“

Viðhorf ungra karla koma ekki á óvart

Það væri ekki síður áhyggjuefni að fáar konur virtust ná þeirri stöðu að verða í forystu innan lögreglunnar. Hlutfall þeirra kvenna sem næði þeim árangri væri afar lágt. Eins væri það grafalvarlegt að 30% kvenna innan lögreglunnar telji sig vera þolendur kynferðislegrar áreitni samkvæmt könnuninni. Það væri eitthvað sem væri óþolandi og yrði að vinna bug á. Þá sé afstaða yngri karlkyns lögreglumanna neikvæðari gagnvart konum í lögreglunni en þeirra sem eldri eru.

„Ég reyndar verð að viðurkenna það sem kona í stjórnmálum og hafandi tekið þátt í stjórnmálum ansi lengi. Þessi niðurstaða kom mér ekki sérstaklega á óvart. Mér finnst stundum sem viðhorf yngri karla til kvenna sem taka þátt í atvinnulífinu til jafns við karla, að það sé oft erfiðara að sannfæra unga karla um að það sé eðlilegt og rétt heldur en eldri karlmenn. Kannski er það þannig í þessum málum eins og svo mörgum öðrum að það kallar á nokkurn þroska að átta sig á því að það er samfélaginu til góðs og heilla að við skiptum með okkur verkum með sanngjörnum hætti,“ sagði ráðherrann ennfremur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert