Eldurinn sennilega slokknaður

Varðskipið Þór sprautar á flutningaskipið Fernanda eftir því sem aðstæður …
Varðskipið Þór sprautar á flutningaskipið Fernanda eftir því sem aðstæður leyfa. Ljósmynd/Landhelgisgæslan

Það lítur út fyrir að eldurinn um borð í skipinu Fernanda sé slokknaður. Þetta segir Ásgrímur Ásgrímsson, framkvæmdastjóri aðgerðasviðs Landhelgisgæslunnar. 

„Við eigum eftir að ganga úr skugga um að eldurinn sé alveg slokknaður en frá varðskipinu er enginn eldur sjáanlegur. Enginn reykur stígur frá skipinu en það myndast mikil gufa þegar vatni er sprautað á það sem bendir til þess að skipið sé mjög heitt.“

Ásgrímur segir skipið hafa rekið töluvert undan vindi. „Það eru áætlanir um að halda áfram að sprauta á skipið til hádegis og þá verður það tengt aftur við dráttartaugina og dregið inn fyrir Garðskaga í Faxaflóa.“

Ekki hefur verið ákveðið ennþá hvert næsta skref verður. „Það á að hvessa í kvöld og ljóst að ef skipið verður ennþá þarna úti í því veðri þá er hætta á að það sökkvi. Og til að hægt sé að fara um borð til þess að athuga hvort eldurinn sé enn lifandi verður það líka að gerast í skjóli,“ segir Ásgrímur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert