Sjá engan eld í skipinu

Þessi mynd var tekin þegar Þór dró Fernöndu út úr …
Þessi mynd var tekin þegar Þór dró Fernöndu út úr Hafnarfjarðarhöfn, en þá logaði glatt í skipinu. mbl.is

Slökkviliðsmenn frá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins, sem fóru um borð í flutningaskipið Fernöndu í dag, hafa ekki orðið varir við neinn eld í skipinu. Hrafnhildur Brynja Stefánsdóttir, upplýsingafulltrúi Gæslunnar, segir samt of snemmt að slá því föstu að eldurinn sé kulnaður.

Varðskipið Þór er með Fernöndu í togi skammt vestur af Reykjanesi. Ágætar aðstæður eru á staðnum núna. Slökkviliðsmenn fóru um borð í skipið til að kanna ástand þess og ganga úr skugga um að enginn eldur væri í skipinu.

Hrafnhildur sagði að það tæki nokkrar klukkustundir að kanna ástand skipsins. Menn væru ekkert að flýta sér og áhersla væri á að gæta vel að öryggi slökkviliðsmanna. Slökkviliðið hefði undirbúið að sprauta froðu ofan í vélarrúmið.

Hrafnhildur sagði að í dag eða á morgun yrði væntanlega tekin ákvörðun um að færa Fernöndu til hafnar í þeim tilgangi að dæla olíu úr skipinu og í framhaldinu að undirbúa skipið fyrir niðurrif. Hún sagði ekki ákveðið hvert farið yrði með skipið.

Áformað er að senda þyrlu Landhelgisgæslunnar á staðinn, en þyrlan er með hitamyndavél og með henni er hægt að meta hvort það er enn mikill hiti í vélarrúminu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert