Popp og pepsi að taka yfir bíóin

Kók hverfur bráðum úr sjoppunni í Sambíóunum.
Kók hverfur bráðum úr sjoppunni í Sambíóunum. mbl.is/HAG

Reiðilegum mótmælabréfum hefur ekki rignt yfir Sambíóin, vegna þeirrar ákvörðunar að hefja sölu á pepsi með poppkorninu, í stað hinar sígildu tvennu popps og kóks. Þeir vanaföstustu hafa þó sumir tjáð óánægju sína á samfélagsmiðlum á netinu.

„Það eru alltaf einhverjir sem eru hræddir við breytingar,“ segir Alfreð Ásberg Árnason framkvæmdastjóri Sambíóanna, sem átti þó ekki von á því að breytingin vekti mikla óánægju og segist líka hafa fengið jákvæð viðbrögð.

Hann segist ekki hafa áhyggjur af því að popp og pepsi venjist ekki. „Það heyrðist ekkert þegar Smárabíó skipti.“

Brutu gamlar hefðir með gosvélum

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem sala á gosi í Sambíóunum vekur viðbrögð fólks því á sínum tíma árið 1982 voru Sambíóin fyrst til að bjóða það fyrirkomulag á poppi og gosi sem þekkist í dag. 

„Þá var allt í glerflöskum og það mátti hvergi fara með gosdrykki inn í sal. Við vorum fyrstir með svona gos í vélum þar sem mátti taka drykkinn með inn og það vakti svaka lukku á sínum tíma. Við brutum gamlar hefðir,“ segir Alfreð.

Síðan þá hefur myndast hefð um að tala um „popp og kók“ í bíó, en Coca cola hefur undanfarið verið á undanhaldi í kvikmyndahúsum höfuðborgarsvæðisins og mun nú aðeins fást í Laugarásbíó.

Tæp 3 ár eru síðan pepsi tók yfir bæði í Smárabíó og Háskólabíó, sem eru í eigu sama aðila. Bíó Paradís er sömuleiðis með samning við Ölgerðina sem þýðir að þar er ekki boðið upp á popp og kók heldur popp og pepsi.

Ekki búið að skipta kókinu út ennþá

Aðspurður segir Alfreð ekkert sérstakt tilefni hafa orðið til þess að innleiða pepsi hjá Sambíóunum.

„Þetta eru bara viðskipti eins og hjá öðrum fyrirtækjum. Ölgerðin hefur verið í jákvæðri sókn og bauð mjög góðan samning sem okkur leist á. Fyrir utan pepsi eru þau með mjög mikla breidd í undirtitlum og sykurlausum drykkjum, það heillaði okkur dálítið líka.“

Þótt það sé ekkert sem bannar að bæði pepsi og kók sé selt samhliða er það óvíða gert hvorki í kvikmyndahúsum og veitingastöðum og segir Alfreð það fyrst og fremst spurningu um hagræði. „Það er flóknara í framkvæmd að vera með tvöfalda dælu. Við höfum bara ekki pláss fyrir það í afgreiðslustöðvunum.“

Ekki er þó ennþá búið að skipta kókinu út fyrir pepsi, og að sögn Alfreðs er ekki búið að ákveða neina dagsetningu um hvenær það verður gert. Þeir vanaföstustu geta því enn nýtt tækifærið og fengið sér popp og kók í Sambíóunum.

Fjölskyldan baki Sambíóunum á 25 ára afmæli bíóveldisins. Talin frá …
Fjölskyldan baki Sambíóunum á 25 ára afmæli bíóveldisins. Talin frá vinstri: Björn Ásberg Árnason, Elísabet Ásberg Árnadóttir, Alfreð Ásberg Árnason, Guðný Ásberg Björnsdóttir og Árni Samúelsson. mbl.is/Golli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert