Varðskipsmenn voru í hættu

Varðskipið Þór glímir við eld í flutningaskipinu Fernanda.
Varðskipið Þór glímir við eld í flutningaskipinu Fernanda. Ljósmynd/Landhelgisgæslan

„Menn eru alltaf í hættu,“ segir Sigurður Steinar Ketilsson, skipherra á varðskipinu Þór, um baráttu varðskipsmanna við eld í flutningaskipinu Fernöndu á dögunum.

Segja má að þetta hafi verið fyrsta þolraun varðskipsins og áhafnarinnar og segir Sigurður Steinar að hún hafi gengið vonum framar. „Það gekk allt slysalaust og allur búnaður virkaði eins og hann á að virka,“ segir hann í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.

Hann segir að mikilvægi varðskipsins hafi heldur betur sannað sig. Menn hafi hreyft við öllum tækjum á æfingum og staðist prófið þegar á hafi reynt.

Hann áréttar að helsta verkefnið í svona tilfellum úti á sjó sé að slökkva sjáanlega elda og kæla skrokk skipsins sem mest. „Það er mjög erfitt að slökkva svona elda úti á rúmsjó í misjöfnu veðri,“ segir hann og áréttar mikilvægi þess að komast á öruggan stað til þess að geta kannað stöðuna betur.

Þór var með Fernöndu í togi í nær viku með tveimur stuttum stoppum í Hafnarfirði áður en farið var með skipið að bryggju í Grundartangahöfn miðvikudaginn 6. nóvember.

„Þetta var mikil eldskírn,“ segir Sigurður Steinar og sagði sérlega gott að hafa haft slökkviliðsmenn með í för. „Við lærðum vel að beita skipinu og búnaðinum við svona aðstæður,“ segir hann.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert