„Borgararnir verða að vera öryggir gagnvart ríkinu“

Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra.
Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra. Ljósmynd/innanríkisráðuneytið

„Ein af grunnskyldum ríkisins er að tryggja öryggi borgaranna. Það má þó ekki gera með þeim hætti að borgararnir séu ekki öryggir gagnvart ríkinu.“ Þetta sagði Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra á fundi hjá Varðbergi í dag um öryggis og varnarmál.

Hanna Birna sagði að á síðustu árum hefðu verið gerðar skiplegar árásir á tölvubúnað ríkisstjórna, t.d. í Eistlandi. Hjá NATO starfar nú sérstök deild sem hefur að gera með tölvuvarnir. Hanna Birna sagði að ríki heims væru smátt og smátt að átta sig á mikilvægi þess að standa vörð um tölvu og upplýsingaöryggi.

„Við Íslendingar getum ekki látið kíkirinn á blinda augað þegar kemur að þessum málum og þurfum að vera í stakk búin til að standa vörð utan um þessi mál eins og önnur. Samhæfðar aðgerðir stjórnvalda, samstarf stjórnvalda og einkaaðila og aukin öryggisvitund almennings eru mikilvæg atriði til þess að ná árangur á þessu sviði.

Netöryggissveit Póst- og fjarskiptastofnunar hóf starfsemi sína á árinu 2012 en henni er ætlað að gegna hlutverki öryggis- og viðbragðshóps til verndar ómissandi upplýsingainnviðum gegn netárásum og tekur þátt í og gegnir hlutverki tengiliðar íslenskra stjórnvalda í innlendu og alþjóðlegu samstarfi um viðbragðsvarnir vegna net- og upplýsingaöryggis. Markmiðið með starfsemi sveitarinnar er að fyrirbyggja og draga úr hættu á netárásum eins og kostur er og sporna við og lágmarka tjón á ómissandi upplýsingainnviðum sem af slíku kann að hljótast.“

Innanríkisráðherra skipaði í sumar starfshóp um víðtæka stefnumótun um net- og upplýsingaöryggi en þar eiga sæti fulltrúar frá innanríkisráðuneytinu, fyrrnefndi netöryggissveit Póst- og fjarskiptastofnunar, ríkislögreglustjóra og utanríkisráðuneytinu. Aðalverkefni hópsins er að móta langtímastefnu stjórnvalda um net- og upplýsingaöryggi. Hópurinn á að setja fram langtímastefnu fyrir tímabilið 2014-2025 og aðgerðaáætlun 2014-2017 en verkefnaáætlun hópsins miðar að því að hvoru tveggja verði tilbúið fyrir lok júní á næsta ári.

„Það er ekki hægt að fjalla um tölvuöryggi án þess að minnast á nýleg dæmi um leka, en við þekkjum öll mál Wikileaks og nú síðast málefni Edward Snowden þar sem í báðum tilvikum gögnum um upplýsingaöflun Bandaríkjamanna hefur verið lekið til almennings.

Burtséð frá þeim veikleikum sem verða þess valdandi að hægt sé að stela gögnum í vörslu bandarískra ríkisstofnana og leka þeim til almennings, þá vekja þær upplýsingar sem þarna koma fram upp spurningar um öryggi almennings gagnvart ríkinu.

Ein af grunnskyldum ríkisins er að tryggja öryggi borgaranna. Það má þó ekki gera með þeim hætti að borgararnir séu ekki öryggir gagnvart ríkinu. Það má þó heyra á ummælum bandarískra stjórnvalda að ráðamenn þar telji að öryggisstofnanir sínar hafi gengið of langt í söfnun og skrásetningu gagna, m.a. með hlerunum og það er vonandi að þar verði mikil breyting á. Sú gagnrýni sem komið hefur fram á gagnasöfnun bandarískra yfirvalda er réttmæt og ég get tekið undir hana. Það sem er þó enn mikilvægara er að við viljum að fólk upplifi öryggi þegar það notar símann sinn eða tölvu, líka öryggi gagnvart opinberum aðilum sem og öðrum,“ sagði Hanna Birna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert