Slegist um Hrútaskrána á elliheimilum

Hrúturinn Garri nýtur mikilla vinsælda, en um hann má lesa …
Hrúturinn Garri nýtur mikilla vinsælda, en um hann má lesa í Hrútaskránni. mbl.is

Hrútaskrá sauðfjársæðingastöðvanna 2013 til 2014 kom út nú í vikunni. Í henni eru upplýsingar um 47 kynbótahrúta sem sauðfjárbændur geta keypt sæði úr í kindur sínar. Fyrir marga er þetta ómissandi lesefni.

Fengitími sauðfjár er aðallega í desember og afgreiðsla á fersku hrútasæði frá sauðfjárstæðingastöðvum Suðurlands og Vesturlands hefst 1. desember og stendur samfellt til 21. desember.

Hrútaskránni er vel fagnað ár hvert og nú liggja sauðfjárbændur yfir „bíblíu“ sinni næstu daga og íhuga úr hvaða hrút er best að panta sæði til að fá lömbin, sem fæðast næsta vor, sem best.

„Það er alltaf mikill spenningur fyrir Hrútaskránni. Þetta er eitt mest lesna rit landsins á þessum árstíma og ekki bara hjá bændum því það er til dæmis rifið út á elliheimilunum,“ segir Torfi Bergsson hjá Búnaðarsamtökum Vesturlands og umsjónarmaður hrútanna á Sauðfjársæðingastöð Vesturlands. Í fyrra voru sæddar 16.927 ær með fersku sæði frá stöðinni og 15.490 ær með sæði frá Sauðfjársæðingastöð Suðurlands. Til Bandaríkjanna voru sendir 226 skammtar af frystu sæði í fyrra og nú í ár verður einnig sent frosið sæði til Noregs.

Spurður hvaða eiginleikum bændur leiti eftir í hrútunum segir Torfi þá fyrst og fremst vera að leita eftir betri kjötgæðum, eins og þykkum hryggvöðva og lítilli fitu, og góðu kynbótamati sem geri þá vænlegri ærfeður, skili frjósömum ám sem mjólki vel.

Torfi vill ekki meina að einn hrútur sé betri en annar, þeir hafi allir sína kosti.
Af þeim 47 hrútum sem má finna upplýsingar um í skránni eru þrjátíu hrútar hyrndir, þrettán kollóttir, einn ferhyrndur, tveir forystuhrútar og einn feldfjárhrútur en þetta er í fyrsta skipti sem sæði úr feldfjárhrúti er í boði. Hann heitir Gráfeldur og er frá Bakkakoti í Meðallandi. Gráfeldur er steingrár að lit og fremur ullarmikill. Í Hrútaskránni segir að við ræktun feldfjár sé lagt mat á fimm ullareiginleika; hreinleika litar, lokkun ullar, þéttleika ullar og gljáa og hárgæði. Torfi segir að með auknum áhuga handverksfólks á ullinni verði líka að horfa til þess að hafa hrúta sem gefi sérstaklega góða ull.

Af tuttugu og tveimur hrútum á Sauðfjársæðingastöð Vesturlands eru átta nýir. „Sumir hrútar eru hjá okkur í mörg ár, þeir elstu núna eru fæddir 2008,  en við endurnýjum líka alltaf hluta. Þeir yngstu eru veturgamlir og svo erum við að taka inn eldri hrúta sem hafa verið að koma mjög vel út á heimabæjunum. Ungu hrútarnir eru ekki komnir með mikla reynslu og þá  er það kynbótaspáin sem gildir. Eldri hrútar eru reyndari og meira vitað um hvað þeir gefa,“ segir Torfi.

Sauðfjársæðingar eru alltaf að aukast að sögn Torfa, áhuginn á sauðfjárrækt hafi alltaf verið mikill og hann sé jafnvel að aukast núna í hópi  hobbí-sauðfjárbænda í kaupstöðum.

Torfi segir stemninguna á Sauðfjársæðingastöð Vesturlands skemmtilega í desember. „Við byrjum klukkan fjögur til fimm á næturnar að taka sæði úr hrútunum og það er sent út um allt land samdægurs. Það er jólaundirbúningurinn hjá okkur,“ segir Torfi og hlær. „Hrútarnir eru núna flestir í banastuði, þetta er þeirra besti tími.“

Sækist eftir mjólkurlagni og frjósemi

„Hrútaskráin er náttúrulega bara jólablað sauðfjárbóndans,“ segir Sigurborg Hanna Sigurðardóttir frá Oddsstöðum í Lundareykjadal. Hún er 22 ára og nemi í búvísindum við Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri, og hugsar um kindurnar á Oddsstöðum ásamt foreldrum sínum. Sigurborg sækist aðallega eftir því að hrútarnir sem hún velur gefi mjólkurlagnar og frjósamar dætur. „Ég held að það sé best að velja hrúta sem eru sterkir í frjósemi og mjólkurlagni og þá kemur hitt sjálfkrafa.“

Sigurborg er búin að kynna sér nýju Hrútaskrána vel og hrútarnir sem hún er spenntust fyrir á stöðinni á Vesturlandi í  ár eru; Guffi frá Garði, Guðni frá Mýrum, Grámann frá Bergsstöðum, Salamon frá Hömrum, Þorsti frá Múlakoti og Garri frá Stóra-Vatnshorni. „Annars eru allir hrútarnir frambærilegir. Það er stöðug þróun og framfarir í sauðfjárrækt og gefur Hrútaskráin fyrirheit um það og sauðfjárbúskapinn næsta vor og haust.“

Á Oddsstöðum eru um 260 vetrarfóðraðar kindur og aðstoðar Sigurborg foreldra sína, Sigurð Odd og Guðbjörgu, við búskapinn. Þau sæða um 70 til 80 ær ár hvert og nota heimahrúta á restina, eins og flestir gera. Sigurborg segist ekki vera einráð um hvaða hrútar eru notaðir á bænum. „Við ræðum stöðvarhrútana fram og til baka og þetta fer í sameiginlegan pott. Svo fer þetta líka eftir því hvaða strá koma, maður fær ekki alltaf þá hrúta sem maður vill.“

Sigurborg segir samnemendur sína á Hvanneyri hafa mikinn áhuga á Hrútaskránni og hún sé eitt aðalumræðuefnið þar um þessar mundir.

Hægt er að lesa Hrútaskrána á netinu.

Torfi Bergsson hjá Búnaðarsamtökum Vesturlands.
Torfi Bergsson hjá Búnaðarsamtökum Vesturlands. mbl.is
Sigurborg Hanna Sigurðardóttir frá Oddsstöðum í Lundareykjadal.
Sigurborg Hanna Sigurðardóttir frá Oddsstöðum í Lundareykjadal.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert