Fyrirburaþjónusta flyst á heilsugæslustöðvar

Fyrirburi á vökudeild barnaspítala Hringsins.
Fyrirburi á vökudeild barnaspítala Hringsins. mbl.is/Golli

Í janúar 2014 mun ung- og smábarnavernd fyrirbura flytjast yfir á heilsugæslustöðvarnar á höfuðborgarsvæðinu. Hópurinn sem hér um ræðir eru börn sem fædd eru fyrir 32 vikna meðgöngu og/eða eru undir 1.500 grömm að þyngd við fæðingu. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

Með flutningnum verður haldið áfram að veita þá fyrirburaþjónustu sem boðið hefur verið upp á til þessa. Hún miðar að því að styðja foreldra meðal annars með tíðum heimavitjunum fyrst eftir heimkomu og að finna heilbrigðis- og þroskafrávik eins snemma og hægt er til að grípa megi til viðeigandi ráðstafana.

Sérhæft  eftirlit með fyrirburum á göngudeild Barnaspítala Hringsins á Landspítala verður áfram eins og verið hefur.

Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins hefur útbúið sérstakar vinnuleiðbeiningar fyrir heilsugæslustöðvarnar þar sem fyrirkomulag þjónustu vegna ung- og smábarnaverndar er skilgreint. Þar kemur meðal annars fram að gert er ráð fyrir að tiltekinn hjúkrunarfræðingur á hverri stöð annist þjónustu við fyrirbura og foreldra þeirra. 

Miðað er við að hjúkrunarfræðingur fari í heimsókn á vökudeild fyrir útskrift og ræði við foreldra og eftir útskrift fari hann í heimavitjanir til fjölskyldunnar eins og hefð er fyrir í almennri ung- og smábarnavernd. Vitjanir eru hins vegar tíðari og eftir að þeim lýkur eru skoðanir oftar en almennt er í ung- og smábarnavernd.

Fram til 2006 var ung- og smábarnavernd fyrirbura á heilsugæslustöðvunum og í dag er henni sinnt á nokkrum heilsugæslustöðvum á höfuðborgarsvæðinu og á heilsugæslustöðvum um allt land.  Árið 2006 var byrjað með ung-og smábarnavernd lítilla fyrirbura á Miðstöð heilsuverndar barna (MHB) fyrir hluta barna á höfuðborgarsvæðinu. Eftir að MHB var lögð niður árið 2009 var ákveðið að vista móttökuna tímabundið hjá Þróunarstofu Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins þar til framtíðarlausn fengist. Nú þegar þessi þjónusta flyst frá Þróunarstofunni er vert að árétta að umtalsverð þekking og reynsla er til staðar í heilsugæslunni varðandi þjónustu við þessi börn og fjölskyldur þeirra, segir í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert