Vill endurskoða kvótastýringu á mjólk

Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. mbl.is/Árni Sæberg

Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, vill endurskoða kvótakerfi í mjólkurframleiðslu. Við núverandi aðstæður séu engin rök fyrir kvótastýringu í mjólkurframleiðslu.

Þetta kom fram í svari ráðherrans á Alþingi í gær við fyrirspurn frá Guðlaugi Þór Þórðarsyni, þingmanni Sjálfstæðisflokksins. Hann spurði Sigurð út í kvótastýringu á framleiðslu á mjólk. Hann benti á að kvótinn hafi verið tekinn upp á tímum þegar offramleiðsla var á mjólk. Nú sé skortur á mjólk og engin málefnaleg rök fyrir því að stýra mjólkurframleiðslu með kvótakerfi.

Sigurður Ingi sagðist geta tekið undir þetta sjónarmið. „Það eru ýmis sóknarfæri sem felast meðal annars í breytingum á neyslumynstri þjóðarinnar, fyrst varð veruleg aukning á próteinneyslu sem hefur aukið skyrneyslu og svo á síðustu árum hefur orðið þróun í aukningu á fituneyslu sem síðan á haustdögum hefur sprengt utan af sér allar spár og er með yfir 20% aukningu milli ára, frá september til september, október til október, nóvember til nóvember, sem hefur orðið til þess, eins og kom fram hjá hv. þingmanni, að bændur geta í raun og veru framleitt allt sem þeir vilja og kvótinn virkar ekki lengur sem aðhaldsaðgerð til að stemma stigu við framleiðslu á innanlandsmarkaði eins og hann var hugsaður.“

Sigurður Ingi sagðist hafa rætt við Bændasamtökin og Landssamband kúabænda um þessi mál. Hann ætlaði um áramót að koma á fót starfshóp til að undirbúa endurskoðun búvörusamninga sem renna út 2016 og 2017. Til greina kæmi að endurskoða þá fyrr ef menn yrðu ásáttir um nýtt fyrirkomulag sem hentaði betur nútímanum og þeim kröfum sem við gerðum til innlendrar matvælaframleiðslu.

„Ég get tekið undir það að við núverandi aðstæður er nokkuð augljóst að engin rök eru fyrir því að við þurfum á kvótastýringu að halda sem hamlar framleiðslu. Við þurfum að horfa til lengri tíma, átta okkur á því í hvaða kerfi við viljum halda áfram með landbúnaðinn okkar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert