Ríkið greiði 250 milljónir í skaðabætur

Hæstiréttur hefur dæmt íslenska ríkið til að greiða Hópbílaleigunni ehf. tæpar 250 milljónir króna í skaðabætur vegna tjóns sem fyrirtækið varð fyrir eftir að tilboðum þess við útboð á áætlunar- og skólaakstri á Suðurlandi, Snæfellsnesi og Suðurnesjum 2006-2008 var hafnað.

Hópbílaleigan höfðaði mál gegn íslenska ríkinu og krafðist bóta vegna missis hagnaðar sem fyrirtkæið kynni að hafa notið ef ekki hefði komið til ákvarðana Vegagerðarinnar um að hafna tilboðum Hópbílaleigunnar við útboð á áætlunar- og skólaakstri á umræddum svæðum.

Hæstiréttur hafði áður viðurkennt bótaskyldu ríkisins gagnvart fyrirtækinu vegna synjunar Vegagerðarinnar. Talið var að fyrirtækið hefði ekki átt kost á að taka að sér samsvarandi verkefni og málið laut að. Ákvörðun fjárhæðar skaðabóta var reist á yfirmatsgerð, en hún er samtals 248.762.900 kr.

Í dómi Hæstaréttar var miðað við að krafa Hópbílaleigunnar bæri vexti samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá nánar tilteknum dagsetningum í samræmi við það sem fram kom í yfirmatsgerð. Þá bar heildarfjárhæð skaðabóta dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi er mánuður var liðinn frá því að yfirmatsgerð lá fyrir. 

Í mars sl. dæmdi Héraðsdómur Reykjavíkur ríkið einnig til að greiða tæpar 248 milljónir kr. í skaðabætur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert