„Hér upplifa gestir sterka tónlistarmenningu“

Mömmudjamm Baggalúts hefur mælst vel fyrir og allt bendir til …
Mömmudjamm Baggalúts hefur mælst vel fyrir og allt bendir til þess að platan verði sú söluhæsta í ár.

Íslensk tónlistarflóra hefur verið mjög fjölbreytt og áhugaverð í ár eins og undanfarin ár, að sögn Ásmundar Jónssonar, formanns Félags hljómplötuútgefenda. Hann segir tónleikasenuna hafa verið sérstaklega skapandi, bæði innanlands og utan. Airwaves-hátíðin hafi verið gríðarlega vel heppnuð að þessu sinni og blómlegar tónlistarhátíðir haldnar út um allt land. Margar hverjar hafi fest sig rækilega í sessi og höfði ekki síður til erlendra ferðamanna en íslenskra áhugamanna um tónlist. „Þetta er mjög jákvæð þróun og ég er ekki í vafa um að erlendir gestir upplifi sterka tónlistarmenningu hér á landi,“ segir Ásmundur.

Heldur minni útgáfa

Spurður um plötuútgáfu segir Ásmundur hana heldur minni að þessu sinni en tvö síðustu ár en sambærilega við árið 2010. Þegar allt er talið eru útgefnar plötur á árinu 2013 hátt í 200 og þá er stafræn útgáfa ekki talin með, aðeins efnisleg útgáfa, það er geisla- og vínylplötur.

Nú þegar stærsta söluhelgi ársins er runnin upp spáir Ásmundur því að plötusala verði heldur minni en í fyrra og hittifyrra. Helgast það öðru fremur af því að „stóru toppana“ vantar að þessu sinni. Fyrir tveimur árum seldi Mugison yfir 30.000 eintök af plötu sinni Haglél, sem Ásmundur segir að sé algjör undantekning í seinni tíð, og í fyrra gengu plötur Ásgeirs Trausta og Of Monsters and Men feikilega vel.

Hafandi sagt þetta er Ásmundur afskaplega ánægður með söluna í desember. Tónlistarunnendur hafi tekið hressilega við sér. Þá hafi plötur, sem búist er við að seljist vel, komið seint út. Nefnir hann tónleikaplötu Skálmaldar og Sinfóníuhljómsveitar Íslands í því sambandi en hún kom ekki í búðir fyrr en í þessari viku. „Desember gefur góð fyrirheit.“

Ásmundur veðjar á að plata Baggalúts, Mamma þarf að djamma, verði söluhæsta plata ársins þegar upp er staðið en Skálmöld og Sinfó gætu þó gert atlögu að henni. Tíu til tólf aðrar plötur hafi einnig burði til að seljast vel, svo sem plötur Sigríðar Thorlacius, Emilíönu Torrini, Pálma Gunnarssonar og Helga Björnssonar.

Að sögn Ásmundar lifir geislaplatan ennþá góðu lífi hérlendis, auk þess sem vínylplatan er upp risin. „Það hefur verið tilhneiging manna á undanförnum árum að tala hið efnislega form niður á sama tíma og hið stafræna form hefur haft meðbyr. Stafræn sala er til dæmis orðin meiri en plötusala í Svíþjóð. Hér heima hafa tónlistarmenn á hinn bóginn ennþá meiri tekjur af sölu geisla- og vínylplatna,“ segir Ásmundur.

Það verður æ algengara í seinni tíð að tónlistarlistamenn auki við útgáfuna til að gera gripinn eigulegri, svo sem með viðbótarefni eða jafnvel mynddiski.

Upprisa vínylplötunnar

Vegur gömlu góðu vínylplötunnar hefur vaxið ört á síðustu árum og það er ekki síst unga fólkið sem festir kaup á tónlist í því formi. Ásmundur fagnar þeirri þróun en ekki liggur fyrir á þessari stundu hver hlutur vínylsins er í heildarplötusölu ársins. „Núna er fyrst tilefni til að kanna þetta,“ segir Ásmundur. „Þú getur talað við mig aftur fljótlega eftir áramót.“

Margar íslenskar plötur koma nú út bæði á geisla og vínyl og viðbúið að sífellt fleiri gamlar plötur öðlist nýtt líf á vínyl.

Spurður um framtíðina á Ásmundur ekki von á öðru en að hljómplatan, í efnislegum skilningi þess orðs, muni halda velli, alltént enn um sinn. Formbreytingar séu í senn erfiðar til að byrja með og hvetjandi fyrir listamenn. Framtíð plötunnar hafi verið í umræðunni síðan um aldamót og eflaust einhverjir undrandi á því að hún haldi ennþá velli. „Allt tengist þetta baráttu höfunda og rétthafa fyrir því að lagalegur réttur þeirra sé virtur. Það er með ólíkindum að önnur lög og reglur gildi um listamenn en aðra í þeim efnum.

En það er önnur saga.“

Þjóðmál Orri Páll Ormarsson orri@mbl.is

Án tónlistar væri lífið glappaskot.

Þýski heimspekingurinn Friedrich Nietzsche.

Metfjöldi tónleika erlendis

Íslenskir tónlistarmenn hafa haldið um 1.400 tónleika á erlendri grundu á árinu sem er að líða. Það eru fernir tónleikar á dag. Skráning hófst ekki fyrr en á síðasta ári en Sigtryggur Baldursson, framkvæmdastjóri Útflutningsmiðstöðvar íslenskrar tónlistar, ÚTÓN, er ekki í vafa um að þetta sé einsdæmi í sögunni. Hann segir mikla breytingu hafa átt sér stað á örfáum árum og til að mynda fjölgaði tónleikum um helming milli áranna 2012 og 2013.

„Þetta hefur verið mjög athyglisvert ár fyrir íslenska tónlist í útlöndum. Þessi mikla aukning í tónleikahaldi skýrist að hluta til af því að flestar helstu stjörnur íslenskrar tónlistar hafa verið á faraldsfæti. Má þar nefna Sigur Rós, Björk, Of Monsters and Men, FM Belfast, Gus Gus og fleiri. Ekki nóg með það, yngri tónlistarmenn hafa líka í auknum mæli verið að komast út á markað. Það er mjög ánægjulegt að sjá það gerast,“ segir Sigtryggur.

Spurður um skýringar segist Sigtryggur sannfærður um að starf ÚTÓN sé farið að skila sér, auk þess sem þekkingin sé almennt að breiðast út meðal íslenskra tónlistarmanna. Þeir séu betur kynntir og tengdir í útlöndum en áður og margir hverjir komnir í samband við öflug bókunarfyrirtæki. Gott dæmi um það séu Ásgeir Trausti og Samaris.

Fleiri vopn á hendi

Sigtryggur nefnir einnig Iceland Airwaves og Loftbrú Reykjavíkurborgar og Icelandair sem séu að vinna mjög gott starf. Þá sé kominn til sögunnar nýr markaðs- og kynningarsjóður sem ÚTÓN hefur séð um í umboði menntamálaráðuneytisins. „Þetta þýðir að ungir tónlistarmenn hafa mun fleiri vopn á hendi núna en þegar við vorum að byrja að flytja íslenskt popp út.“

Mest hafa íslenskir tónlistarmenn látið að sér kveða í Evrópu en einnig í Suður- og Norður-Ameríku, Asíu og Ástralíu. Segja má að allur heimurinn sé undir. Mikil aukning hefur til dæmis orðið á tónleikahaldi í Kína, ekki síst í klassíkinni.

Sigtryggur reiknar ekki með viðlíka fjölda tónleika á erlendri grundu á næsta ári, erfitt verði að fylgja þessari sprengju eftir, en þar sem stoðkerfið sé orðið eins öflugt og raun ber vitni megi fastlega gera ráð fyrir blómlegum útflutningi í náinni framtíð.

Þegar Ásmundur Jónsson er spurður hvað hafi staðið upp úr í íslensku tónlistarlífi á árinu 2013 segir hann af mörgu að taka. Airwaves-hátíðin kemur fyrst upp í hugann. Hún hafi verið gríðarlega sterk á árinu, eins og undanfarin þrjú ár. „Það er frábær árangur að viðhalda stemningu og spennu í kringum þá hátíð – ár eftir ár.“

Hann nefnir líka raftónlistarhátíð Sinfóníuhljómsveitar Íslands í Hörpu undir styrkri stjórn Ilans Volkovs. Hún sé mjög gott innlegg í íslenskt tónlistarlíf. „Raunar á það við um margt fleira sem tengist tónlistarhúsinu okkar. Það hefur verið gríðarleg menningarleg upplyfting. Stuðlað að auknu samtali milli ólíkra listgreina og samtali íslensks tónlistarlífs við umheiminn.“

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert