Eykur á misskiptinguna

Aðalsteinn Baldursson, formður Framsýnar neitaði að skrifa undir kjarasamninginn.
Aðalsteinn Baldursson, formður Framsýnar neitaði að skrifa undir kjarasamninginn.

Framsýn, stéttarfélag Þingeyinga, telur að verði nýgerður kjarasamningur samþykktur muni hann auka enn frekar á misskiptinguna í þjóðfélaginu. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá félaginu. 

„Full ástæða er til að fordæma ríkistjórn Íslands fyrir að sniðganga íslenskt verkafólk með því að lækka ekki skatta á láglaunafólki. Það gerist á sama tíma og hátekjufólki  eru færðar skattalækkanir á silfurfati samkvæmt ákvörðun Alþingis í gær. Þá vekur þáttur Alþýðusambands Íslands töluverða athygli en sambandið taldi ekki ástæðu til að standa að fullu við bakið á láglaunafólki sem krafðist þess að persónuafslátturinn yrði hækkaður til jafns við aðra.

Þá er það með öllu óásættanlegt að verkafólk á töxtum Starfsgreinasambands Íslands skuli í krónum talið fá mun lægri launahækkanir en aðrir hópar launafólks þrátt fyrir að svigrúm sé til staðar í ákveðnum atvinnugreinum s.s. sjávarútvegi. Dæmi eru um að hátekjumenn í krónum talið fái margfaldar hækkanir verkafólks út úr samningnum.

Forystumenn ASÍ og SA kalla þennan gjörning samning í þágu láglaunafólks, jafnvel tímamótasamning. Metnaður þeirra fyrir kjörum verkafólks sem búið hefur við kjör innan við kr. 200 þúsund á mánuði er ekki merkilegri en þetta sem er umhugsunarefni,“ segir í yfirlýsingunni.

Tekið er fram í yfirlýsingunni að Framsýn standi heilshugar við bakið á formanni félagsins sem neitaði að skrifa undir kjarasamninginn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert