Beðið með mokstur vegna veðurs

Ófært er yfir Steingrímsfjarðarheiði, Þröskulda og Klettsháls á Vestfjörðum. Ófært er svo yfir Fjarðarheiði og Oddsskarð á Austurlandi. Beðið er með mokstur vegna veðurs.

Hálka og skafrenningur er á Sandskeiði og Hellisheiði en hálka í Þrengslum. Hálka eða hálkublettir eru víðast hvar á Suðurlandi.

Hálkublettir eða hálka er á Vesturlandi og víðast hvar skafrenningur. Ófært er yfir Fróðárheiði og á milli Búða og Hellna.

Á Vestfjörðum er eins og áður sagði ófært og stórhríð á Steingrímsfjarðarheiði, Þröskuldum og Klettshálsi en þæfingur og óveður á Hjallahálsi.

Snjóþekja eða hálka er annars á flestum öðrum leiðum en þó er þungfært frá Skálmadalsá í Brjánslæk og svo er þæfingur í Ísafirði. Á Ströndum er ófært úr Bjarnarfirði norður í Djúpavík.

Það er hálka og víða skafrenningur á Norðvesturlandi. Þá er einnig skafrenningur á Siglufjarðarvegi en þæfingur.

Norðaustanlands er snjóþekja og skafrenningur á Öxnadalsheiði og Víkurskarði. Þungfært er svo á Hólasandi en á öðrum aðalleiðum er snjóþekja eða hálka ásamt skafrenningi eða éljum. Áframhaldandi hálka eða snjóþekja er á Austurlandi en einnig er éljagangur víða. Ófært er bæði yfir Fjarðarheiði og Oddsskarð og stórhríð.

Hreindýrahópur eru nú rétt norðan við Lindarsel á Háreksstaðaleið. Snjóþekja og éljagangur er svo frá Djúpavogi vestur í Kvísker.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert