Lika bíður enn átekta

Lika Korinteli.
Lika Korinteli. Mbl.is/Eggert

Lika Korinteli, georgísk kona sem sótti fyrst um hæli hér á landi árið 2005, hefur enn ekki fengið svar frá innanríkisráðuneytinu vegna umsóknar hennar um dvalarleyfi hér á landi á grundvelli mannúðarsjónarmiða.

mbl.is greindi frá því þann 9. janúar sl. að það stæði til að svara henni áður en janúarmánuður væri hálfnaður, en ljóst er að ekkert varð úr því. Þetta staðfestir Helga Vala Helgadóttir, lögmaður Liku, í samtali við mbl.is. Áður greindi mbl.is frá því að Lika fengi svar við umsókn sinni fyrir lok ársins 2013.

Eins og áður hefur komið fram kom Lika hingað til lands árið 2005 og sótti um hæli. Umsókn hennar var synjað af Útlendingastofnun (ÚTL) eftir hálft ár og dóms- og kirkjumálaráðuneytið staðfesti útskurðinn hálfu ári síðar. Í ferli málsmeðferðar komu þær upplýsingar frá yfirvöldum Georgíu að þau gætu ekki borið kennsl á að Lika væri ríkisborgari í Georgíu.

Það að Lika geti ekki framvísað gögnum sem sanna á óyggjandi hátt að hún sé sú sem hún segist vera stóð líka í vegi fyrir því að Útlendingastofnun tæki ákvörðun um að veita henni leyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða og nú bíður Lika átekta eftir ákvörðun innanríkisráðuneytisins

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert