Ætla í samstarf við hinsegin fólk í Úganda

Baráttumaður fyrir réttindum samkynhneigðra.
Baráttumaður fyrir réttindum samkynhneigðra. AFP

„Í framþróun verður oft bakslag og þá er það undir kraftinum í baráttunni komið hvort þetta sé í raun bakslag eða ástandið verði viðvarandi,“ segir Anna Pála Sverrisdóttir, formaður Samtakanna '78, um þá stöðu sem upp er komin í málefnum samkynhneigðra í Úganda og Nígeríu, og raun víðar.

Eins og komið hefur fram í fjölmiðlum þá var á dögunum lagt bann við því í Nígeríu að samkynhneigðir hittist. Jafngildir það því að gera samkynhneigð ólöglega í landinu. Þegar hefur heyrst af handtökum á grundvelli nýju laganna en stjórnvöld hafa sjálf neitað fyrir það. Þá bárust í dag fréttir frá Úganda þess efnis að forseti landsins hefði synjað lögum staðfestingar sem hefðu gert það að verkum að dæma mætti fólk í lífstíðarfangelsi fyrir samkynhneigð.

Þrátt fyrir að lögin verði ekki að veruleika í Úganda eru ofsóknir gegn samkynhneigðum algengar. Varla dregur úr þeim eftir daginn í dag en á sama tíma og forsetinn sagðist ekki ætla að staðfesta lögin tók hann fram að aðrar leiðir væru til að „lækna“ samkynhneigða.

Styðja systursamtökin í Úganda

Anna Pála þekkir vel til ástandsins í Úganda en í fyrravor kom til Íslands Kasha, talskona systursamtaka Samtakanna '78, á vegum Amnesty. „Samtökin '78 komu að þeirri heimsókn og var í henni ákveðið að koma á skipulögðu samstarfi á milli samtakanna og systursamtaka okkar í Úganda. Þetta snertir okkur því heilmikið og við höfum fylgst mjög grannt með þróuninni að undanförnu.“

Meðlimir Samtakanna '78 ætla sér ekki að sitja auðum höndum enda blasi við að ástandið í Úganda er skelfilegt. „Ummæli forsetans eru lýsandi fyrir viðbrögðin sem hinsegin fólk mætir. Og þegar ráðamenn leyfa sér slíkan málflutning þá ýtir það undir ofbeldi í sinni allra grófustu mynd. Það þýðir beinlínis að að hinsegin fólk í Úganda er í stöðugri lífshættu.“

Meðal þess sem samtökin hyggjast gera er að veita systursamtökum sínum í Úganda aðstoð. „Þó svo ekki sé enn hægt að greina frá smáatriðum þá erum við með formlegt verkefni og vel skilgreint í pípunum sem snýr að því að styðja við þessi systursamtök okkar svo þau geti upplýst sitt samfélag betur. Þannig unnust sigrar okkar á Íslandi, með fræðslu og upplýsingagjöf, og geta gert það annars staðar einnig.“

Þá hafa samtökin einnig tengsl við Nígeríu og ástandið þar. Þau styðja við nígerískan samkynhneigðan hælisleitanda á meðan máls hans er til meðferðar hér á landi. „Hann bíður þess ennþá að fá úrlausn síns máls og ég trúi því ekki að íslensk stjórnvöld verði uppvís að því að senda hann aftur til Nígeríu eins og mál eru að þróast, að þau hreinlega kjósi að bera ábyrgð á því.“

Leifar frá Nýlendutímanum

Anna Pála segir að haldið sé úti markvissum áróðri gegn samkynhneigð í umræddum löndum og hann hafi áhrif. „Ekki síst þegar stjórnvöld taka þátt í honum eða standa jafnvel fyrir honum. Það hefur á endanum áhrif auk þess sem það getur verið mjög áhrifaríkt að banna hreinlega allt upplýsingaflæði eins og gert var í Rússlandi.“ 

Hún nefnir að löggjöfin í umræddum löndum sem stuðst er við til að banna og gera samkynhneigð refsiverða sé í raun að hluta til leifar frá nýlendutímanum. „Því er hins vegar haldið fram, meðal annars í Úganda, að samkynhneigð sé and-afrísk og hlutI af vestrænni hnignun. Þetta eru hins vegar ekki síður leifar af nýlendutímanum og þáverandi vestrænum gildum. Það sést vel í Indlandi þar sem nýlega féll ömurlega afturhaldssamur Hæstaréttardómur.“

Anna Pála segir vaxandi áhuga á því innan Samtakanna '78 að leggja baráttunni á alþjóðavísu lið. „Þótt baráttunni séalls ekki lokið hér heima þá höfum við náð talsverðu fram og teljum það okkar skyldu að hjálpa til annars staðar.“

Anna Pála og Kasha í höfuðstöðvum Samtakanna ´78 í apríl …
Anna Pála og Kasha í höfuðstöðvum Samtakanna ´78 í apríl 2013 en þá var ákveðið að koma á skipulögðu samstarfi samtakanna.
Regnbogafáninn.
Regnbogafáninn. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert