Omega braut gegn lögum

Sjónvarpsstöðin Omega.
Sjónvarpsstöðin Omega.

Kristniboðskirkjan Omega braut gegn lögum um fjölmiðla með sýningu erlends myndefnis án íslensks tals eða texta á sjónvarpsstöðinni Omega dagana 15.-20. ágúst í fyrra. Þar sem Kristniboðakirkjan lofaði að taka í notkun nýja tegund af textabúnaði var fallið frá því að beita sektum.

Þetta kemur fram í ákvörðun fjölmiðlanefndar frá því í nóvember síðastliðnum. Í henni segir að fjölmiðlanefnd hafi fengið ábendingu um að taka til athugunar hvort Kristniboðskirkjan Omega hefði brotið gegn lögum þegar sent var út án íslensks tals eað texta á umræddu tímabili. Af því tilefni óskaði fjölmiðlanefnd eftir afriti af allri útsendri dagskrá á sjónvarpsstöðinni Omega frá 15.-20 ágúst.

Þá segir að Kristniboðskirkjan hafi viðurkennt að hafa sent út erlenda þætti án íslensks tals og texta á umræddu tímabili. Í svarbréfi til fjölmiðlanefndar sagði að Kristniboðskirkjan geymdi gögn á þann hátt að til væri eintak af öllum þáttum sem hefðu farið í loftið, 18 mánuði aftur í tímann og því gæti reynst tímafrekt að samkeyra með texta þá erlendu þætti sem fóru í loftið dagana 15.-­20. ágúst. Sumarafleysingamaður hefði hins vegar tjáð þeim að hann hefði lent í einhverjum erfiðleikum með tækjabúnaðinn. Textunartæki hefði virkað þannig að keyra þurfti mynd og texta samhliða í útsendingu og hefði það stundum komið fyrir að samskiptavilla kom upp á milli þessara tækja, sem hefði einmitt gerst þessa tilteknu daga.

Í bréfinu kemur einnig fram að allir erlendir þættir sem séu sýndir hafi verið textaðir yfir á íslensku og þeir þættir sem fóru textalausir í loftið 15.­-20. ágúst hafi verið endursýndir með texta á öðrum tímum.

Fjölmiðlanefnd sannreyndi ekki að efnið hefði verið sýnt án íslensks tals og texta en tók svar Kristniboðskirkjunnar gott og gilt. Komst hún að þeirri niðurstöðu að Kristniboðskirkjan Omega hefði brotið gegn 1. málsl. 2. mgr. 29. gr. laga um fjölmiðla nr. 38/2011 með sýningu á erlendu efni á sjónvarpsstöðinni Omega dagana 15.­-20. ágúst án íslensks texta. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert