Spurningin um ESB ofmetin

Jón Gnarr borgarstjóri.
Jón Gnarr borgarstjóri. mbl.is/Kristinn

Jón Gnarr borgarstjóri segir að spurningin um hvort Ísland eigi að ganga í Evrópusambandið sé ofmetin. Það skipti ekki meginmáli hvort Íslandi gangi inn í sambandið, hvorki fyrir landið sjálft né Evrópusambandið.

Í ítarlegu viðtali á vefsíðunni The Reporters Hive segir hann jafnframt að sambandið sé einungis ný tegund af samvinnu milli fólks af ólíkum þjóðernum. Samvinna á sveitastjórnarstiginu sé hins vegar mun skilvirkari en samvinna milli landa.

Borgarstjórinn ræðir um allt milli himins og jarðar í viðtalinu en hann bendir meðal annars á aukið mikilvægi borga í samfélaginu.

Aðspurður segir hann til dæmis að við séum að verða vitni að dauða stjórnmálanna og að við munum sjá minna af stjórnmálum í framtíðinni. „Pólitíska landslagið er líka að breytast því að pólitíska valdahlutfallið er að færast til borganna og borgarstjórarnir eru að fá meiri pólitísk áhrif en þeir áður höfðu,“ segir hann.

Hætti að veiða hvali

Í viðtalinu er fjallað um eitt af kosningaloforðum Besta flokksins fyrir sveitastjórnarkosningarnar 2010 um að koma ísbirni fyrir í Húsdýragarðinum. Jón segir að það hafi alltaf verið alvara á bak við það loforð og að stefnt sé að því fá hann í garðinni eftir tíu til fimmtán ár.

„Ísland er ekki mjög langt frá heimkynnum þeirra þannig að það er ekki óraunhæft,“ nefnir hann. „Þetta yrði einnig frábær auglýsing fyrir bæði Ísland og Reykjavík. Það sem og hvalveiðar, sem munu einhvern tímann leggjast af,“ segir hann.

Bætir hann því við að það séu meiri tekjur sem koma af hvalaskoðun en hvalveiðum. Við ættum frekar að láta hvalina í friði og skoða þá, en ekki drepa þá, því þetta séu svo magnaðar skepnur.

Vill skólakerfi eins og Subway

Jón fjallar einnig um skólamálin og liggur þar ekki á skoðunum sínum. Honum finnst að skólakerfið eigi að bjóða upp á fjölbreyttara val og vera að miklu leyti eins og skyndibitastaðurinn Subway.

„Ef skólakerfið væri eins og Subway gengur þú inn og velur hvaða tegund af brauði sem þú vilt. Og það er ekkert mál. Og ef þú vilt ekki gúrkur, þá segirðu bara: Engar gúrkur, takk. En í skólakerfinu er þessu öfugt farið. Þú færð hraefnið og átt bara að borða það, hvort sem þér líkar það betur eða verr. Ef þú vilt ekki fá þær gúrkur kemur einhver og segir við þig: Þær eru góðar fyrir þig.”

Engu máli skipti þótt manni finnst gúrkur vondar, maður á að borða þær.

Dönskukennsla gagnslaus

Hann segir enn fremur það vera gagnslaust að verja tíma og peningum í það að kenna börnum dönsku. Áherslan eigi frekar að vera lögð á ensku- og íslenskukennslu. 

„Þetta verður sífellt meira vandamál eftir því sem innflytjendum fjölgar og fleiri börn eru fjöltyngd. Ef þú átt franska móður og pólskan föður og býrð á Íslandi, þá þarftu að sjálfsögðu að læra að pólsku, íslensku og ensku - en allt í einu dönsku?“

Heiða Kristín Helgadóttir og Jón Gnarr.
Heiða Kristín Helgadóttir og Jón Gnarr. mbl.is/Eggert
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert