Una ekki niðurstöðu ráðherra

Finnur Árnason, forstjóri Haga.
Finnur Árnason, forstjóri Haga. Lárus Karl Ingason

Finnur Árnason, forstjóri Haga, segir ákvörðun sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um að úthluta ekki viðbótartollkvótum fyrir innflutning á buffala-, geita- og ærmjólkurostum né lífrænum kjúklingi koma á óvart.

„Ég var nú aðeins bjartsýnni í þessu. Og fyrst og fremst af því að þetta er sambærilegt mál og smjörmálið, þar sem Mjólkursamsalan sækir um á grundvelli skorts. Ég tel málin sambærileg og rökstuðningurinn ætti í sjálfu sér að vera eins,“ segir hann.

Finnur segir athyglisvert að Högum hafi ekki borist formlegt svar vegna beiðnar sinnar um viðbótarkvótann, þar sem búið sé að birta opinbera tilkynningu á netinu.

Hann segir forsvarsmenn Haga munu fara yfir málið með lögmönnum fyrirtækisins.

„Við erum ósáttir við niðurstöðuna og við munum halda áfram með málið, því það er augljóst að stjórnvaldið er að fara í manngreiningarálit,“ segir Finnur.

Hann segir nokkrar leiðir færar í stöðunni. „Það er umboðsmaður og það er dómstólaleiðin og síðan eru ákveðnir þættir sem við erum að skoða þar fyrir utan.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert