Hefur samráð um svör við kæru Geirs

Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra.
Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra. mbl.is/Golli

Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra átti í gær fund með formönnum stjórnmálaflokkanna um þá vinnu sem ráðuneytið hefur lagt í varðandi svör við kæru Geirs H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, til Mannréttindadómstól Evrópu, en hann kærði dóminn sem felldur var yfir honum í Landsdómi.

„Það er rétt að ég átti stuttan fund með formönnum allra stjórnmálaflokka í gær til þess að upplýsa þá um þessa vinnu sem fram hefur farið í innanríkisráðuneytinu til að svara erindi Mannréttindadómstólsins vegna kæru fyrrverandi forsætisráðherra," sagði Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra í samtali við mbl.is. Hún vildi að öðru leyti ekki tjá sig um fundinn.

Mannréttindadómstóllinn sendi á síðasta ári íslenskum stjórnvöldum bréf þar sem lagðar eru fram spurningar um málsmeðferðina. Stjórnvöldum ber að svara erindinu fyrir 6. mars.

Í erindinu er fjallað um kæru Geirs H. Haarde til dómstólsins í máli 66847/12 og sex spurningar lagðar fyrir stjórnvöld vegna kærunnar. Stjórnvöldum er gert að útvega dómstólnum enska þýðingu af niðurstöðum Landsdóms í máli gegn kæranda, sem og öðrum ákvörðunum eða niðurstöðum tengdum málinu, að því er fram kom á vef innanríkisráðuneytisins í nóvember á síðasta ári.

Á fundi formanna flokkanna í gær kynnti Hanna Birna þá vinnu sem ráðuneytið hefur lagt í við að svara spurningum dómstólnum.

Andri Árnason, lögmaður Geirs H. Haarde, sagði í samtali við mbl.is að innanríkisráðuneytið hefði ekki rætt neitt við Geir um þau svör sem ráðuneytið væri að undirbúa. Ráðuneytinu bæri hins vegar að kanna hvort grundvöllur væri fyrir sáttum í málinu, en engar viðræður hefðu hins vegar farið fram við Geir um það.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert